Keflavík tekur á móti Stjörnuninni í Iceland Express deild karla í kvöld í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ og eflaust verður þétt setið á áhorfendabekkjunum enda staðan 1-1 þessa leiktíðina í rimmum liðanna. Stjarnan byrjaði á því að leggja Keflavík í deildinni í Ásgarði en Keflvíkingar komu fram hefndum í Garðabæ og meinuðu Stjörnunni um að verja Subwaybikarinn. Af þessu tilefni setti Karfan.is sig í samband við mann sem býr við þann lúxus að geta fagnað hvoru megin sem sigurinn fellur en sá kappi heitir Jón Kr. Gíslason sem leikið hefur með og þjálfað bæði liðin.
Þín tilfinning fyrir viðureign Keflavíkur og Stjörnunnar í kvöld? Hvaða þættir leiksins munu skipta máli í þessari viðureign?
Stjarnan reiðir sig á 50 stig frá Justin og Jovan, Keflvíkingar geta sett upp þá taktík að draga úr því skori eða að halda hinum algjörlega niðri og þá má búast við frábærri rimmu á milli Sigga Þorsteins og Fannars. Þá held ég að heimavöllurinn vegi þungt, flest lið fá hraðari hjartslátt og óttablandna tilfinningu á Reykjanesbrautinni. Þetta verður flottur leikur, allir að mæta !
Treystir þú þér til að spá um sigurvegara?
Leikurinn fer í framlengingu, sé ekki lengra fram í tímann.
Stjarnan vann deildarleikinn en Keflavík vann bikarleikinn – finnst þér liðin mikið breytt síðan þessir tveir leikir þeirra fóru fram?
Í deildarleiknum fyrr í vetur átti Fannar frábæran leik fyrir Stjörnuna. Í bikarleiknum var hann ekki með og þá blómstraði Siggi Þorsteins. Nýi kani Keflvíkinga breytir væntanlega stílnum hjá þeim, en reynsluboltarnir Gunni Einars og Sverrir leyfa honum ekki að komast upp með neina vitleysu.
Þrátt fyrir að vera margreyndir leikmenn þeir Guðjón og Teitur þá þykja þeir ekki gamlir í þjálfarastarfinu – hvernig finnst þér þessir kappar hafa staðið sig á tímabilinu og hvað er svona ólíkt í þeirra þjálfun?
Þeir eru ekki ósvipaðir, hafa báðir spilað þúsundir leikja, vita út á hvað þetta gengur og ég fæ ekki betur séð en að þeir séu að miðla þeirri reynslu til sinna manna. Báðir eru miklir sigurvegarar og keppnismenn. Gaui er að göslast í mikilli hefð, á meðan Teitur er að hjálpa okkur að byggja upp körfuboltahefð í handboltabænum.
Að lokum – ætlar þú að fara á leikinn og hvort liðið munt þú styðja?
Ég ætla á leikinn og er í þeirri lúxusaðstöðu að vera ánægður hvernig sem leikurinn fer. Stjörnuhjartað stækkar ört, en ég verð alltaf Keflvíkingur.
Ljósmynd/ Úr safni KKÍ: Jón Kr. þjálfaði m.a. A-landslið Íslands á sínum tíma.