spot_img
HomeFréttirStjarnan Poweradebikarmeistari 2013

Stjarnan Poweradebikarmeistari 2013

Garðbæingar eru með fullt hús í Laugardalshöll, tvær ferðir í bikarúrslit, tveir sigrar! Sami þjálfarinn, kanslari Teitur. Stjarnan lagði Grindavík í Poweradebikarúrslitunum í dag, lokatölur voru 91-79 Stjörnuna í vil og ekki laust við að það hafi verið smá 2009 þefur af Stjörnumönnum í dag. Jarrid Frye var réttilega valinn maður leiksins með 32 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Sigur Stjörnunnar var verðskuldaður enda útfærðu þeir sín plön af harðfylgi og léku þétta vörn gegn sterkum Grindvíkingum. Nestið sem liðin fóru með í Höllina var nokkuð mismundandi, Stjarnan kom í Laugardalinn með fjögur deildartöp á bakinu en Grindavík með þrjá sigra í röð. Bláir risu úr öskustónni og spyrntu sér með látum af þeim botni sem þeir höfðu náð nú nýverið.
 
 
Rétt eins og árið 2009 voru fáir sem glöddust meir en Teitur Örlygsson þegar leik lauk og er þetta annar stórtitillinn sem hann vinnur með Stjörnuna. Silfurskeiðin í stúkunni, stuðningsmannasveit Stjörnunnar, stóð sig einnig ekki síður en leikmenn liðsins á vellinum svo um tvöfaldan sigur var að ræða, bæði á parketinu og í stúkunni.
 
Meiðsla-Marvin opnaði leikinn fyrir Garðbæinga með sóknarfrákasti og körfu að auki en Silfurskeiðin í stúkunni lét vel í sér heyra og bláir tvíelfdust. Marvin skokkaði svo í vörn og varði skot frá Aaron Broussard, óskabyrjun fyrir leikmann sem hefur verið tæpur undanfarið vegna meiðsla og alls óvíst hvernig hans aðkoma að leiknum í dag myndi verða.
 
Aaron Broussard gerði fyrstu stig Grindavíkur í leiknum og jafnt var á öllum tölum framan af, 10-10 en úr þeirri stöðu sleit Jovan Garðbæinga frá þegar hann raðaði niður þristum, 20-16 og Stjörnumenn leiddu 25-21 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Jovan og Jarrid Frye voru beittir. Fyrsti leikhluti var hraður og skemmtilegur og hart barist, virkilega gott nesti inn í næstu þrjá leikhluta.
 
Jóhann Árni Ólafsson opnaði annan leikhluta fyrir Grindavík með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 25-24. Jovan Zdravevski svaraði að bragði og splæsti svo skömmu síðar í annan og staðan 39-24. Garðbæingar rjúkandi og Jovan búinn að setja niður alla fjóra þristana sína til þessa. Jarrid Frye reyndist Grindvíkingum erfiður og þegar hann lagði af stað losnaði vel um aðra liðsmenn Stjörnunnar sem leiddu 47-39 í hálfleik.
 
Bæði lið mættu með töluverða hörku inn í síðari hálfleikinn og gulir þéttu varnarleikinn, bláir héldu sig fast við sinn keip, vörnin þétt og fínt flæði í sókninni, það fínt að teigtröllið Brian Mills ákvað að læða sér út fyrir þriggja stiga línuna og koma Garðbæingum í 55-44. Grindvíkingar komust ekkert nærri í þriðja leikhluta, Stjarnan vann leikhlutann 18-15 og gerðu vel að ýta gulum útúr mörgum af sínum aðgerðum og fyrir vikið var sóknarleikur Grindavíkur nokkuð óreiðukenndur og á köflum ætluðust gulir til of mikils af Aaron Broussard.
 
Marvin Valdimarsson var fljótur að næla sér í sína fimmtu villu í liði Stjörnunnar í upphafi fjórða leikhluta og kvaddi leikinn með 9 stig og 4 fráköst. Jarrid Frye kom Stjörnunni í 72-58 með þriggja stiga körfu þegar sex mínútur voru til leiksloka. Þegar hér var komið við sögu hafði Stjarnan verið með mjög góð tök á leiknum og spurning hvort Grindavík ætlaði sér eitthvað í Höllinni þennan daginn.
 
Grindvíkingar settu saman 9-2 syrpu þar sem Jóhann Árni Ólafsson minnkaði muninn í 77-67 en bláir voru einfaldlega í 2009 gírnum! Grindvíkingar komust ekki nærri, úrræðaleysi þeirra í dag gegn Stjörnunni var umtalsvert og verður að hrósa Garðbæingum fyrir leikskipulag sitt sem gekk vel upp og ljóst að þrekvirki var unnið í því að snúa við gengi liðsins fyrir jafn stóran leik og bikarúrslitin. Lokatölur 91-79 Stjörnuna í vil.
 
Þónokkuð af stuðningsmönnum Grindavíkur hóf að týnast úr húsi áður en leik lauk og er það lýti á þeirra frammistöðu í dag og í raun vanvirðing við Grindavíkurliðið sem vissulega hefur átt betri daga en ekki svona framkomu skilið!
 
Til hamingju með bikaritilinn Garðbæingar!
 
Byrjunarliðin:
Grindavík: Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Stjarnan: Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Jarrid Frye, Fannar Helgason og Brian Mills.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -