Það var fátt um fína drætti þegar Fjölnismenn tóku á móti næstefsta liði deildarinnar, Stjörnunni, í Dalhúsum í kvöld. Leikurinn minnti fyrstu 35 mínúturnar helst á góðan sunnudagsgöngutúr en ekki leik í Iceland Express deildinni.
Fyrsti leikhluti var verulega svæfandi. Var engu líkara en bæði lið hefðu snúið sólarhringnum við yfir hátíðarnar og væru að vakna eftir langan nætursvefn, því körfuboltinn sem spilaður var á varla heima í efstu deild á Íslandi. Að loknum þessum fyrsta fjórðung leiddu heimamenn með einu stigi, 15-14.
Liðin tóku sig nokkuð á í stigaskorinu í öðrum leikhluta, en þó vantaði enn mikið upp á til að leikurinn gæti talist skemmtilegur. Fjölnismenn náðu góðri skorpu um miðbik fjórðungsins og leiddu um tíma með 14 stigum, en á þessum kafla var nákvæmlega ekkert í gangi hjá Stjörnunni, hvorki í vörn né sókn. Garðbæingar spýttu þó aðeins í lófana þegar líða tók á hálfleikinn og minnkuðu muninn í 5 stig fyrir leikhlé, staðan 44-39 í hálfleik.
Stjörnumenn unnu þennan mun fljótlega upp í þriðja leikhluta, en misstu dampinn jafnfljótt og heimamenn gengu á lagið. Fjölnismönnum tókst að klóra fram nokkur stig í lok leikhlutans og leiddu með sjö stigum fyrir lokafjórðunginn, 67-60.
Það benti fátt til þess að Stjörnumenn gætu sigrað þennan leik framan af fjórða leikhluta. Heimamenn náðu 11 stiga forskoti þegar um 7 mínútur voru til leiksloka, og miðað við spilamennsku Garðbæinga allan leikinn var sigur ekki í kortunum. Þeir tóku þó um miðjan leikhlutann að saxa á þetta forskot heimamanna, leiddir áfram af Justin Shouse og Guðjóni Lárussyni, sem voru langbestir hjá Garðbæingum. Var svo komið að þegar hálf mínúta var til leiksloka tókst Justin að skora og koma Stjörnunni einu stigi yfir, 75-76. Fjölnir geystist í sókn og Calvin O’Neal setti niður stökkskot, og 18 sekúndur á klukkunni. Þá tók Teitur Örlygsson leikhlé til að ráðfæra sig við sína menn.
Leikkerfið sem Stjarnan tók í næstu sókn var þó ekki ýkja flókið. Justin Shouse fékk boltann fyrir utan þriggja stiga línuna, rakti knöttinn í 12 sekúndur og setti svo niður lygilegt stökkskot yfir Fjölnismann, og Stjarnan því einu stigi yfir og sex sekúndur eftir. Þá tók Örvar þjálfari Fjölnis leikhlé. Calvin O’Neal fékk boltann í sókninni en Keith Cothran náði að stöðva hann og ná boltanum, eins stigs sigur Stjörnumanna staðreynd eftir að þeir hafi átt einn sinn versta leik í vetur, að mati undirritaðs. Fjölnismenn geta þó verið mjög svekktir því þeir höfðu 2 stig í rassvasanum nánast allan tímann, en ljóst er að Fjölnir gefur lítið fyrir hrakspár svonefndra sérfræðinga, en liðið sýndi oft ágæta takta í kvöld.
Stigahæstur heimamanna í leiknum var Nathan Walkup með 28 stig, þar af komu 19 í fyrri hálfleik. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 21 stig og Guðjón Lárusson kom næstur með 18 stig og 7 fráköst, en Justin og Guðjón báru af hjá Stjörnumönnum í kvöld, að öðrum ólöstuðum.
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson