spot_img
HomeFréttirSterkur varnarleikur KR reyndist Valskonum um megn

Sterkur varnarleikur KR reyndist Valskonum um megn

Gera mátti ráð fyrir miklum slag þegar Valur og KR mættust í Iceland Express deild kvenna í kvöld en einstefna KR kom á daginn sem höfðu öruggan 53-68 sigur í leiknum. Margrét Kara Sturludóttir gerði 19 stig og tók 8 fráköst í liði KR sem lék þéttan varnarleik og áttu Valskonur í stakasta basli með að brjóta sér leið upp að körfu gesta sinna.
Þegar liðin voru kynnt skömmu fyrir leik las vallarþulurinn upp nöfn leikmanna Vals og greindi frá í hvaða stjörnumerki viðkomandi var, hressandi nýbreytni og mældist vel fyrir.
 
Leikar stóðu 16-17 KR í vil að loknum fyrsta leikhluta og allt benti til þess að Reykjavíkurslagur Vals og KR gæti orðið hjartastyrkjandi. Valskonur brydduðu upp á svæðisvörn sem KR gekk svona þolanlega að leysa en bæði lið voru afar mistæk í fyrsta leikhluta.
 
Röndóttar hófu annan leikhluta 2-9 en Berglind Karen Ingvarsdóttir færði Valskonur nærri að nýju, 26-28 með þriggja stiga körfu. Við þetta hljóp kapp í kinnar KR sem tóku leikhlé, réðu sínum ráðum og stungu svo af. KR breytti stöðunni í 28-44 og lokuðu því öðrum leikhluta 2-16. Sóknarleikur Valskvenna var litlaus gegn sterkri KR vörninni og ef hann var litlaus í öðrum leikhluta þá var hann gersamlega týndur í þeim þriðja.
 
Valur gerði aðeins fjögur stig í þriðja leikhluta, sjaldan hefur einn hálfleikur farið verr í lið en þriðji leikhluti fór 4-11 fyrir KR sem leiddu þá 32-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Hallveig Jónsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir virtust vera einu leikmenn Vals sem vildu ekki tapa stórt og tóku sínar rispur en það var of lítið og of seint.
 
Í stöðunni 43-59 KR í vil voru Valskonur að bíta frá sér og virtust líklegar til að saxa á forskot KR en þá voru fimm mínútur til leiksloka. Tvær sóknir í röð grýtti Valur boltanum frá sér og KR uppskar hraðaupphlaup og fjögur stig fyrir vikið og sú litla von sem Valur hafði kveikt varð að engu og KR kláraði leikinn 53-68.
 
Með sigrinum hefur KR 16 stig í 3. sæti deildarinnar en Valur er í 6. sæti með 8 stig og er fjórum stigum á eftir Haukum og Snæfell sem bæði töpuðu sínum leikjum í umferðinni. 
 
Margrét Kara Sturludóttir gerði 19 stig og tók 8 fráköst í liði KR og Bryndís Guðmundsdóttir gerði 14 stig og tók 7 fráköst. Hjá Val var Melissa Leichlitner með 11 stig og 4 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir bætti við 9 stigum og 7 fráköstum.
 
Stigaskor:
 
Valur: Melissa Leichlitner 11/4 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 9/7 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 6/4 fráköst/6 stolnir, Hallveig Jónsdóttir 6, María Ben Erlingsdóttir 6, Þórunn Bjarnadóttir 5, María Björnsdóttir 5/4 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 3, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 2/6 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 0, Kristín Óladóttir 0, Signý Hermannsdóttir 0/4 fráköst.
 
KR: Margrét Kara Sturludóttir 19/8 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 14/7 fráköst, Erica Prosser 12/6 fráköst/6 stoðsendingar, Hafrún Hálfdánardóttir 8, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 7/10 fráköst/6 stoðsendingar, Helga Einarsdóttir 5/14 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 3, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Sólrún Sæmundsdóttir 0.
 
Mynd og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -