spot_img
HomeFréttirStefnir í fulla Laugardalshöll annað kvöld

Stefnir í fulla Laugardalshöll annað kvöld

Á morgun fimmtudag leikur Ísland gegn Spáni í næstsíðasta leik sínum í undankeppni HM 2023. Leikurinn fer fram kl. 19:45 í Laugardalshöll og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Ísland hefur aldrei verið með jafn mikla möguleika á að tryggja sig inn á lokamót, en þegar allar þjóðir Evrópu eiga tvo leiki eftir hafa níu sæti af tólf verið fyllt. Ísland berst í þessum síðustu tveimur leikjum við Georgíu og Úkraínu um þetta síðasta sæti riðilsins inn á lokamótið. Fyrir leikina eru Ísland og Georgía jöfn, hvort um sig með fjóra sigra á meðan að Úkraína er í sætinu fyrir neðan með þrjá sigra það sem af er undankeppni.

Hérna eru fréttir af HM 2023

Mótherjar morgundagsins frá Spáni eru ríkjandi Evrópu- og heimsmeistarar, en þeir fóru uppfyrir Bandaríkin á heimslista FIBA á síðasta ári og eru nú talin sterkasta þjóðin í heiminum. Í lið þeirra á morgun mun þó vanta einhverja af þeirra sterkustu leikmönnum, þar sem liðið hefur þegar tryggt þáttökurétt sinn á lokamótinu sem fram fer á Filippseyjum, Indónesíu og í Japan seinna á árinu.

Samkvæmt færslu KKÍ á samfélagsmiðlum gengur miðasala vel á leikinn gegn Spáni og stefnir það í að Laugardalshöllin verði full á morgun þegar Ísland mætir sterkustu þjóð heims í þessum mikilvæga leik.

Miðasala er þó enn í fullum gangi og fer fram í smáforritinu Stubb.

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -