spot_img
HomeFréttirStál-Úlfur fékk ósk sína uppfyllta: Sjá sína menn mæta Kananum

Stál-Úlfur fékk ósk sína uppfyllta: Sjá sína menn mæta Kananum

 
Polarbeer hraðmótið í körfuknattleik hefst á morgun á Álftanesi og meðal liða í mótinu er Stál-Úlfur en innan raða liðsins eru einvörðungu leikmenn frá Litháen. Þegar fyrstu drög að leikskipulaginu voru skoðuð kom í ljós að Stál-Úlfur átti leik í mótinu á sama tíma og Litháen mætir Bandaríkjunum á morgun á Heimsmeistaramótinu í Tyrklandi.
Körfuknattleikur er þjóðaríþróttin í Litháen og því kom það skipuleggjendum hraðmótsins örugglega ekki á óvart þegar liðsmenn Stálúlfs báðu um breytingu á leikjaniðurröðun sinni. Skipuleggjendur hraðmótsins höfðu snarar hendur og nú er búið að breyta leikjafyrirkomulaginu í riðli Stál-Úlfs. Hægt er að nálgast leiðrétt leikjaplanið hér.
 
Leikir Stál-Úlfs verða því flott upphitun áður en kemur að landsleiknum stóra gegn Bandaríkjamönnum en leikur þeirra gegn Litháen hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma.
 
Mynd/ Neyðin kennir naktri konu að spinna eins og þessi mynd gefur til kynna. Við á Karfan.is áttum hvorki mynd né lógó frá Stál-Úlfi svo þetta var það næsta sem við komumst. Vonandi verður bætt úr því þessa helgina.
 
Fréttir
- Auglýsing -