spot_img
HomeFréttirSpennulaust í Mustad-höllinni í Grindavík

Spennulaust í Mustad-höllinni í Grindavík

Það var eins og veðurguðirnir sem minntu hressilega á sig í Grindavík í dag og kvöld, hafi sogað alla orku úr heimamönnum því þeir mættu nánast flatir til leiks í þessum leik sem margir héldu að gæti orðið spennandi.  Grindvíkingar hafa verið á uppleið að undanförnu og því gældu heimamenn við spennandi leik og jafnvel sigur en sneru úr Mustad með hundshaus.

Njarðvíkingar tóku strax völdin og unnu alla leikhlutana.  10 stigum munaði í hálfleik og vissulega er það enginn munur en Njarðvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn með sama krafti og leikurinn varð aldrei spennandi.

Það að heimamenn hafi mætt svona flatir og stemningslausir hlýtur að vekja ákveðinn ugg í brjósti stjórnenda liðsins.  Ekki þarf mikinn stærðfræðing til að sjá muninn á 3-4 eða 2-5 eins og staða Grindvíkinga er núna en alla baráttu vantaði nánast allan leikinn.  Þeir einu með lífsmarki voru stóru menn gulra, þeir Jordy Kuiper, Tiembe Bamba og Ólafur Ólafs.  Lewis Clinch og Sigtryggur Arnar náðu sér engan veginn á strik.

Mig grunar að Njarðvíkingar séu „liðið að vinna“ í vetur!  Að bæta við einu stykki Elvari Má Friðrikssyni og að hann falli svona beint inn í leik liðsins gerir gott lið margfalt betra.  Breiddin er mikil og eru þeir sterkir bæði inni í teig og fyrir utan.  Af mörgum góðum er á engan hallað ef Mario er tekinn út fyrir sviga en hann skilaði 34 framlagspunktum og steig varla feilspor allan tímann.  Hitti úr 6/8 skotum sínum (2/2 í þristum), tók 10 fráköst og vel að merkja, blokkaði 4 skot.  Frábær leikmaður þarna á ferð.

Fréttir
- Auglýsing -