spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSpá fyrir Dominos deild karla - 8. sæti: Keflavík

Spá fyrir Dominos deild karla – 8. sæti: Keflavík

Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við kynnum liðið sem verður síðasta liðið inn í úrslitakeppnina, 8. sætið.

8. sæti – Keflavík

Eftir að hafa farið inn í mótið fyrir ári síðan með einn besta hóp deildarinnar voru væntingarnar miklar. Snubbóttur var þó endir á tímabilinu, þar sem lykilmenn voru meiddir á ögurstundu í erfiðri seríu gegn Íslandsmeisturum KR. Í sumar missir liðið svo tvo af betri leikmönnum sínum í Mike Craion (KR) og Gunnari Ólafs (Oviedo). Í staðinn fá þeir aðeins minni eða óþekkt nöfn og þar af leiðandi er ekki búist við miklu af þeim þennan veturinn. Það er þó ekki að segja að liðið geti ekki klifrað eitthvað hærra en í þetta 8. sæti.

Komnir:

Andrés Ísak Hlynsson frá KR

Veigar Áki Hlynsson frá KR

Deane Williams frá Augusta 

Dominykas Milka

Hjalti Þór Vilhjálmsson frá KR (þjálfari)

Khalil Ahmad frá Cal State Fullerton (USA)

Davíð Alexander H. Magnússon frá Fjölni

Farnir:

Sverrir Þór Sverrisson í pásu (þjálfari)

Davíð Páll Hermannsson til Grindavíkur

Gunnar Ólafsson til Oviedo (Spánn)

Michael Craion til KR

Mindaugas Kacinas til Palencia (Spánn)

Mantas Mockevicius óljóst

Mikilvægasti leikmaður:

Hörður Axel Vilhjálmsson er mikilvægasti leikmaður Keflavíkur. Það ætti nú svosem ekki að koma á óvart. Þekkt stærð, sem umdeilanlega, er hægt að útnefna besta leikstjórnanda deildarinnar. Það sem af er undirbúningstímabili virðist litháinn Dominykas Milka einnig vera þeim ansi mikilvægur. Algjört lykilatriði fyrir Keflavík að þessir leikmenn komist snemma í takt við nýtt tímabil.

Fylgist með

Bræðurnir Andrés Ísak og Veigar Áki Hlynssynir hafa verið með efnilegri leikmönnum landsins síðustu ár. Óljóst er hversu stórt hlutverk þeir fá með Keflavík í vetur, en ljóst er að ef þeir komast eitthvað af stað með liðinu, þá eru hæfileikar þar í kippum sem gaman verður að fylgjast með.

Þakið:

Keflavík getur verið Keflavík í Keflavík. Með réttri stemmingu og ef að erlendir (nýjir) leikmenn liðsins eru jafn góðir og þeir hafa litið út fyrir að vera á undirbúningstímabilinu, þá gætu þeir vel horft upp í 5. sætið, eða jafnvel heimavöllinn í 4. sætinu.

Gólfið:

Þetta 8. sæti er í raun og veru gólfið fyrir Keflavík. Nokkuð mikill munur, að er virðist, á þeim og þeim liðum sem spáð er í sætin fyrir neðan þá.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020

  1. _________________
  2. _________________
  3. _________________
  4. _________________
  5. _________________
  6. _________________
  7. _________________
  8. _________________
  9. Þór
  10. Fjölnir
  11. ÍR
  12. Þór Ak
Fréttir
- Auglýsing -