spot_img
HomeFréttirSpá fyrir Dominos deild karla – 5. sæti: Njarðvík

Spá fyrir Dominos deild karla – 5. sæti: Njarðvík

Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við kynnum liðið sem spáð er 5. sætinu.

5. sæti – Njarðvík

Njarðvík var með eitt besta lið landsins á síðasta tímabili. Voru bæði nálægt bikar og deildarmeistaratitil. Runnu svo á rassinn gegn ÍR í úrslitakeppninni. Væntingarnar fyrir þetta tímabil ekki þær sömu og í fyrra. Aðallega vegna þess að Elvar Már Friðriksson er farinn aftur frá liðinu. Samt mikið af hæfileikum í þessu Njarðvíkurliði. Sterkur kjarni íslenskra leikmanna, Maciek, Ólafur Helgi, Logi, Kristinn Páls og fleiri. Ættu að geta unnið hvaða lið sem er á góðum degi. Við höldum þó að það verði ekki alltaf raunin í vetur.

Komnir:

Wayne Martin frá Leicester

Evaldas Zabas frá TAU Castello (Spánn)

Farnir:

Elvar Már Friðriksson til Børas Basket

Jeb Ivey hættur

Snjólfur Marel Stefánsson til Black Hills State University (USA)

Gabríel Sindri Möller til Augusta Jaguars (USA)

Adam Eiður Ásgeirsson til John Brown University (USA)

Eric Katenda óljóst

Mikilvægasti leikmaður:

Maciek Baginski verður mikilvægasti leikmaður liðsins í vetur. Uppalinn Njarðvíkingur sem hefur sýnt það og sannað á síðustu árum að hann er algjörlega einn af betri leikmönnum deildarinnar.

Fylgist með

Verður gaman að sjá hvernig Jón Arnór Sverrisson verður með Njarðvík í vetur. Einn af efnilegri leikmönnum landsins síðastliðin ár, sem tími er kominn á að fái bæði mínútur og tækifæri til þess að sýna sig á stóra sviðinu.

Þá verður einnig gaman að sjá hvort að Veigar Páll Alexanderson fær einhver tækifæri með liðinu í vetur. Gífurlega efnilegur 18 ára leikmaður á ferðinni þar sem sérstaklega gaman er að fylgjast með spila. Geislar af orku og er með hæfileika sem gætu komið honum í fremstu röð á næstu árum.

Þakið:

Njarðvík er ólíkindatól þennan veturinn. Þeir gætu, ef allt smellur, endað í öðru sætinu. Þeir vinna deildina ekki.

Gólfið:

Líkt og svo mörg lið, stendur Njarðvík og fellur eilítið með erlendum leikmönnum. Ef þeir eru glataðir og liðið fer í endalausa hringi með þá í vetur, þá er til veruleiki þar sem að Njarðvík endar í sjöunda, eða áttunda sætinu.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020

 1. _________________
 2. _________________
 3. _________________
 4. _________________
 5. _________________
 6. Valur
 7. Haukar
 8. Keflavík
 9. Þór
 10. Fjölnir
 11. ÍR
 12. Þór Ak
Fréttir
- Auglýsing -