spot_img
HomeFréttirSnæfell með öruggan sigur í Ásgarði

Snæfell með öruggan sigur í Ásgarði

Snæfell sótti sigur í Ásgarð í kvöld þar sem þær mættu Stjörnunni í Domino‘s deild kvenna. Eftir sigurinn situr Snæfell í 2.-3. sæti deildarinnar með 28 stig líkt og Keflavík og einungis tveimur stigum á eftir toppliði Skallagríms. Stjarnan er í 4. sæti með 20 stig en Valur saxaði á forskot þeirra með sigri á Grindavík í kvöld og sitja Valskonur nú í 5. sæti með 16 stig.   

Kjarninn
Einungis annað liðið mætti tilbúið til leiks í Ásgarði í kvöld og átti Stjarnan erfitt uppdráttar bæði í sókn og vörn. Snæfell spilaði hörkuvörn á heimakonur, þröngvuðu þær í erfiðar sendingar og skot sem leiddi til þess að Stjarnan hafði tapað 18 boltum áður en flautað var til hálfleiks. Munurinn á liðunum 17 stig þegar liðin héldu til klefa og ljóst að róðurinn yrði erfiður fyrir Stjörnuna í síðari hálfleik.

Stjarnan náði sér aldrei almennilega á strik í síðari hálfleik, þrátt fyrir að fjöldi tapaðra bolta hafi minnkað til muna borið saman við fyrri hálfleik, en á meðan hélt Snæfell áfram að spila sinn leik. Snæfellingar juku muninn enn frekar í þriðja leikhluta og sigruðu að lokum örugglega með 27 stigum, 54-71.  

Hetjan
Aaryn Ellenberg-Wiley var atkvæðamest í liði Snæfells með 26 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Þá átti Berglind Gunnarsdóttir mjög góðan leik fyrir gestina, var dugleg að sækja sóknarfráköst og endaði hún með 11 stig og 13 fráköst, þar af 7 sóknarfráköst.

Tölfræðin
Lið Stjörnunnar tapaði samtals 24 boltum í leiknum og náði Snæfell að skora 30 stig í kjölfar tapaðra bolta heimakvenna. Þessi tölfræðiþáttur vóg þungt í kvöld auk þess sem gestirnir unnu frákastabaráttuna og voru með betri skotnýtingu. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -