spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaSmárinn er erfiður erfiður heim að sækja

Smárinn er erfiður erfiður heim að sækja

Hvers vegna gengur Blikum betur á heimavelli en útivell?

Fátt hefur verið jafn umtalað í Subwaydeild karla og varnarleikur Breiðabliks – eða skortur þar á að einhverra mati. Margir halda því fram að drengirnir frá Kópavogi hvíli sig á varnarhelmingnum þó þeir gefi allt í sóknarleikinn. Þá er aðallega átt við þríhyrning-tveir varnaruppstillingu Péturs Ingvarssonar, þar sem áherslan hefur verið að velja einhverja tvo leikmenn í liði andstæðingsins sem ekki mega fá opin skot en hinir mega skjóta að vild. Þetta þýðir að þessir þrír heppnu í liði andstæðingsins verða óáreittir svo lengi sem þeir fara ekki langt inn fyrir þriggja stiga línuna en hinir tveir verða í gjörgæslu.

Blikar skora og fá á sig rétt rúmlega 106 stig að meðaltali í leik í vetur – langhæst allra liða í deildinni. Næstir á eftir þeim eru Þór Þorlákshöfn með 98,8 stig í leik. Út frá öllum helstu mælikvörðum á varnarleik eru Blikar næstversta eða versta varnarlið deildarinnar. Á sóknarhelmingnum eru þeir hins vegar eitt af þremur bestu liðunum í Subwaydeildinni – jafnvel í sögu deildarinnar. Sem stendur er Breiðablik með fjórða hæsta eFG% (skilvirk skotnýting) frá upphafi skráningar á tölfræði í efstu deild eða 58,4%. Níunda hæsta meðalstigafjölda per 100 sóknir (ORtg) eða 116,1 og allt þetta á öðru hæsta “pace” sem skráð hefur verið eða yfir 90 sóknir að meðaltali í leik.

Þrátt fyrir allan þennan sóknarleik hefur ekki gengið vel að vinna leiki en Breiðablik er í 10 sæti deildarinnar með sjö sigurleiki á móti 11 tapleikjum. Þeir hafa þó verið tæpir oftar en einu sinni þar sem sex leikir hafa tapast með 5 stigum eða minna en aðeins einn þeirra endað með sigri Blika. Staðan er 1-3 í leikjum þar sem stigamunur er þrjú stig eða minna. Þeir hafa þó sigrað sex af þeim liðum sem spáð var fyrir ofan þá fyrir leiktíðina.

Blikar hafa tapað átta af níu útileikjum sínum á útivelli en í Smáranum er allt aðra sögu að segja þar sem þeir hafa sigrað sex af níu. Sturlaða varnarstrategían hjá Pétri er einhverra hluta vegna að virka í Smáranum.

Eins og áður sagði gefa Blikar ansi mikið opnum þriggja stiga skotum þegar þeir spila fyrrnefnt þríhyrning-tveir varnarafbrigði. Um 40% af skottilraunum andstæðinga Breiðabliks fyrir utan þriggja stiga línuna eru óáreitt (e. uncontested) eða með öðrum orðum “galopin”. Munurinn er hins vegar sá að andstæðingar Blika hitta síður þessum skotum í Smáranum en á eigin heimavelli eins og sjá má á töflunni hér að neðan.

Meðalskotnýting úr óáreittum skotum í deildinni er 37,3% samkvæmt tölfræði frá InStat en gestirnir í Smáranum setja hins vegar niður 32,4% þeirra skota sem þeir fá óáreittir og 32,5% af þriggja stiga skotunum. Ólíkt í útileikjum Blika þar sem heimamenn setja niður yfir 46% opinna skota. Skilvirk skotnýting (eFG%) gesta í Smáranum er 51,2% en meðaltal deildarinnar er 52,5%. Öll þessi opnu skot virðast vera hvetjandi fyrir andstæðinga Blika því þeir taka um 38,3 þriggja stiga skot í Smáranum en öll önnum lið í deildinni skjóta að meðaltali 31,3 þriggja stiga skot í útileikjum. Nýtingin er svipuð eða 33,1% í Smáranum en 33,8% í öðrum útileikjum. Fleiri þriggja stiga skot og sama nýting þýðir fleiri skot sem skoppa langt af hringnum og það þýðir hraðaupphlaup fyrir þokkalegt varnarfrákastalið eins og Blika á heimavelli með um 70% af mögulegum fráköstum í vörn þar sem meðaltal deildarinnar er um 72%

Blikar leiða deildina í hraðaupphlaupum og kemst ekkert lið nálægt þeim hvað skilvirkni varðar þar. Þeir skora 25,2 stig per 100 sóknir úr hraðaupphlaupum á heimavelli en meðaltal deildarinnar er 15,5 og 14,7 ef Breiðablik er tekið út fyrir það meðaltal. Skilvirknin er minni á útivelli en samt sem áður umtalsvert hærri en hjá öðrum liðum.

Annað sem keyrir af stað hraðaupphlaup eru stolnir boltar en Blikar stela næstflestum boltum í deildinni eða 8,9 á eftir 9,5 frá Tindastóli. Á heimavelli stela þeir 9,3 boltum í leik og 63,6% af töpuðum boltum andstæðinga í Smáranum er stolið af Blikum – meðaltal deildarinnar er 56,9%. Gestirnir í Smáranum tapa einnig 14,7 boltum að meðaltali sem er það þriðja hæsta í deildinni.

Allt virðist þetta skila sér í óreiðu og vandræðagangi hjá þeim sem mæta Blikum í Kópavoginum. Við skoðun á átta leikjum Breiðabliks í vetur með jafnri skiptingu milli heima- og útileikja kom í ljós að andstæðingar Breiðabliks eru með 5,3 óþvingaða tapaða bolta í leik í Smáranum eða 28,4% af heildinni á móti 3,8 og 26,8% annars staðar.

Sama hvað spekingarnir segja þá er – ef marka má ofangreint – erfitt að mæta Blikum í Smáranum.

Fréttir
- Auglýsing -