spot_img
HomeFréttir"Njarðvíkingar spiluðu frábærlega, gengu á lagið og bara murkuðu úr okkur lífið"

“Njarðvíkingar spiluðu frábærlega, gengu á lagið og bara murkuðu úr okkur lífið”

Undanúrslit Subway deildar karla rúlluðu af stað í kvöld með einum leik. Deildarmeistarar Vals lutu í lægra haldi gegn Njarðvík í N1 höllinni, 84-105. Njarðvíkingar því komnir með yfirhöndina í einvíginu 1-0, en næsti leikur er komandi föstudag í Ljónagryfjunni.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Finn Frey þjálfara Vals sem var merkilega brattur eftir stórt tap í kvöld:

Ég sá fyrir mér að eftir að Jefferson meiddist og ljóst að Kári yrði ekki meira með að það myndi að lokum bíta í Valsliðið, birtast að lokum…gerðist það í þessum leik?

Nei…auðvitað voru element sem Josh var að gera fyrir okkur sem var gott, en við erum búnir að vera án hans það lengi að við getum ekki notað það sem einhverja afsökun. Í þessum leik var það bara vörnin og orkustigið sem var ekki nógu gott og bara hvað við vorum soft. Það var að bíta okkur í rassgatið. Njarðvíkingar spiluðu frábærlega, gengu á lagið og bara murkuðu úr okkur lífið jafnt og þétt í gegnum leikinn.

Jájá, það var vissulega eins og orkustigið hafi ekki verið neitt sérstaklega hátt…hvað skýrir það eiginlega? Dettur þér eitthvað í hug?

Það er milljón dollara spurningin maður! Ég veit það ekki alveg…þeir framkvæma fyrstu sóknirnar sínar vel og hitta vel, eftir það vorum við einhvern veginn eftir á, mér fannst við vera mjög svona reaktívir í staðinn fyrir proaktívir í okkar varnarleik og gott lið eins og Njarðvík fann leið til að refsa okkur í nánast hverri einustu sókn þannig að…við fáum á okkur 54 stig hérna í fyrri hálfleik og annað eins hérna í seinni hálfleik. Liðið hefur byggt sína velgengni á varnarleik svo er það aðallega það sem ég horfi á sem vandamálið.

Já…þetta var ekkert sérstaklega Valslegt má segja…

Neinei, en svo líka á sama tíma bara kudos á Njarðvík fyrir frábæra frammistöðu, þeir voru bara miklu betri og það er bara okkar að svara því.

Akkúrat. Ég verð alltaf fyrir svo miklum áhrifum bara af síðasta leik sem ég horfi á…og ég sé bara enga von fyrir þína menn. Ég vona að þú sért bjartari en ég?

Jájá! Við gefumst ekki upp eftir einn leik! Ég hef mikla trú á þessu liði mínu, það er mikið í það spunnið og við trúum því að þessi leikur hafi verið one off og að frammistaðan verði betri á föstudaginn. Ég trúi ekki öðru en að menn séu hungraðir að koma inn í næsta leik og ætla að sýna sitt rétta andlit, þetta var langt frá því.

Einmitt. Það er auðvelt að segja það en auðvitað erfiðara að framkvæma það að það þarf bara meiri orku og djöfulgang í þína menn, í kvöld komu líka svo fá moment með ykkur til að fagna og til að koma mögulega einhverju af stað…það er erfitt að rífa sig upp á nákvæmlega engu einhvern veginn, ef þú skilur hvað ég meina…

Jájá, þegar vörnin lekur alltaf þá færðu alltaf körfu í andlitið og þá gerist einmitt það…það er einfaldasta skýringin á því.

Sagði Finnur, og vonandi fyrir Valsmenn og seríuna sjáum við betra Valslið í Njarðvík á föstudag.

Fréttir
- Auglýsing -