Undir 20 ára lið kvenna keppir þessa dagana í B deild Evrópumótsins í Eilat í Ísrael. Fyrsta leik mótsins töpuðu þær íslensku í gær fyrir Grikklandi, en í dag töpuðu þær einnig leik sínum gegn Slóvakíu, 36-68.
Líkt og í leiknum í gær gegn Grikklandi, byrjuðu íslensku stelpurnar leikinn ekki vel. Eftir fyrsta leikhluta voru þær 9 stigum undir, 6-15 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn kominn í 17 stig, 16-33.
Seinni hálfleikurinn var svo einnig eign Slóvakíu. Eftir þrjá leikhluta var munurinn kominn í 23 stig, 27-50. Fór svo að lokum að Slóvakía sigraði með 32 stigum, 36-68.
Atkvæðamest í íslenska liðinu var Thelma Dís Ágústsdóttir, en hún skoraði 12 stig, tók 7 fráköst og stal 3 boltum á þeim 29 mínútum sem hún spilaði.
Íslenska liðið ekki verið að ná í úrslit í þessum fyrstu tveimur leikjum mótsins, en næst leika þær á morgun gegn Úkraínu. Úkraína hefur, líkt og Ísland, tapað báðum leikjum sínum til þessa og verður því líklega hart barist.
Hægt er að fylgjast með leikjum mótsins hér