KR hafði öruggan sigur á Hetti, 68-101, í 32-liða úrslitum bikarkeppni KKÍ á Egilsstöðum í gærkvöld. Þrátt fyrir stóran sigur og að KR hafi haft frumkvæðið lengst af var leikið af fullri alvöru allt fram undir lok fjórða leikhluta en þá má segja að bæði lið hafi bara farið að bíða eftir að leiktíminn rynni út enda úrslitin ráðin.
„Við kannski fengum ekki alveg það út úr leiknum sem við ætluðum okkur fá og náðum okkur aldrei almennilega í gang“ sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR eftir leikinn. Þetta má alveg til sanns vegar færa því að jafnræði var með liðunum í upphafi og Hrafn sá sér þann kost vænstan að taka leikhlé þegar Hattarmenn komust í 14-12 og fengu víti að auki. Staðan eftir fyrsta fjórðung 17-19 og gestirnir varla mættir til leiks.
Þetta breyttist nokkuð í öðrum leikhluta. KR spilaði mun sterkari vörn, náðu að keyra hraðari sóknir og skora á heimamenn áður en þeir náðu að stilla almennilega upp í 2-3 svæðisvörnina sem þeir léku allan leikinn. „Ef við hefðum reynt að spila maður á mann hefðu þeir sprengt okkur strax“ sagði Viggó Skúlason þjálfari heimamanna aðspurður um varnarleikinn. „Við vorum líka aðeins að reyna að passa stóru mennina okkar. Þetta gekk ágætlega“. En svæðisvörnin kom ekki í veg fyrir að KR ynni annan leikhluta stórt og staðan í hálfleik 28-45.
Síðari hálfleikurinn spilaðist mikið til eins og sá fyrri. Það skyldi ekki mikið á milli liðanna í þriðja leikhluta en munurinn jókst lítillega og staðan 50-72 í lok hans. Fjórði leikhlutinn var hins vegar KR-inga og lokastaðan sem áður segir 68-101. Viggó þjálfari heimamanna var ekkert sérstaklega kátur í leikslok. „Það er aldrei gaman að tapa. Frammistaðan var góð í 20 mínútur en hún þarf að vera góð í 40 mínútur. Við vorum að spila á móti sterku liði og þeir leyfa ekkert, þeir refsa strax.“ Hattarmenn áttu samt ágæta spretti og bestir þeirra voru Viðar Örn Hafsteinsson sem skoraði 22 stig og Daniel Terrel sem skoraði 14 stig. Þessir tveir voru að hitta úr „ansi mörgum mögnuðum skotum“ svo notuð séu orð þjálfara KR-inga. Nicholas Paul skoraði 13 stig og tók 10 fráköst sem var alls ekki svo slæmt miðað við að vera að eiga við öfluga miðherja KR.
Í KR liðinu bar mest á Maurice Walker sem skoraði 20 stig og þá setti Brynjar Björnsson niður 15 stig, þar af fjögur þriggja stiga skot af níu. Það sem mesta athygli vakti þó í liði gestanna var innkoma ungra stráka sem ekki hafa verið áberandi í úrvalsdeildinni, sérstaklega Martins Hermannssonar og Matthíasar Orra Sigurðssonar sem eru báðir 16 ára. Þeir voru mjög sprækir og Martin setti m.a. niður þrjú þriggja stiga skot í röð í fjórða leikhluta. „Það var svolítið markmiðið að gefa þeim sem hafa þurft að sitja hvað mest smá ást og leyfa þeim að reyna sig. Matthías og Martin eru báðir mjög efnilegir leikmenn og það kom engum af þeim eldri á óvart þegar þeir fóru að hitta hér í dag. Martin var valinn efnilegasti leikmaður Norðurlandamótsins U-16 ára í sumar og hann kann hitt og þetta fyrir sér“.
Dómarar leiksins voru þeir Halldór Geir Jensson og Jakob Árni Ísleifsson og hafa þeir vonandi einhvern tíma átt betri dag. Mörgum heimamanninum þótti þeir a.m.k. bera full mikla virðingu fyrir stóra liðinu í þessum leik.
Umfjöllun: Stefán Bogi
Ljósmynd/ Úr safni: Marcus Walker var stigahæstur KR-inga á Egilsstöðum.