spot_img
HomeFréttirSkyldusigur í Vesturbænum: Sigrún með þrennu

Skyldusigur í Vesturbænum: Sigrún með þrennu

Reykjarvíkuliðin KR og Fjölnir mættust í DHL-höllinni í dag en þá fór fram 11.umferð Iceland Express deildar kvenna. Bæði liðin byrjuðu tímabilið vel en undanfarnar vikur hafa verið liðunum erfiðar og því mikilvæg tvö stig í boði. Fyrir leikinn sat KR liðið í 4.sæti eftir að hafa einungis náð í 2 stig af síðustu 10 mögulegum en Fjölnir vermdi botnsætið með 4 stig ásamt Hamri. Einungis 8 leikmenn voru mættar úr Grafarvoginum og meðal þeirra sem ekki voru á skýrslu var Katina Mandylaris en hún var í borgaralegum klæðum á bekk gestanna. KR liðið var hins vegar nær fullskipað en Rannveig Ólafsdóttir gat ekki leikið með liðinu vegna meiðsla.
Byrjunarlið KR: Erica Prosser, Margét Kara, Sigrún, Helga og Bryndís.
Byrjunarlið Fjölnis: Brittney Jones, Erla Sif, Birna, Eva María og Bergdís.
 
Það var ljóst snemma að bæði liðin ætluðu sér mikið og bar leikurinn þess merki í upphafi leiks. Óðagot í sóknarleik liðanna var áberandi og ákvarðanataka í varnarleik léleg. Fjölnir hóf leik í 2-3 svæði enda hefur KR liðið átt erfitt um vik gegn þeirri vörn að undanförnu. Sú vörn skilaði þó ekki miklu gegn KR liðinu í dag sem tætti vörnina í sig en klaufaskapur í kringum körfuna og léleg hittni fyrir utan þriggja stiga línuna háði liðinu í byrjun. Svipaður klaufaskapur var í gangi hjá Fjölnisstúlkum í kringum körfu heimamanna en hin öfluga Brittney Jones virtist nær fyrirmunað að skora úr sniðskotum á löngum köflum í leiknum.
 
Bryndís Guðmundsdóttir dró vagninn fyrir KR liðið í fyrsta leikhlutanum en Margrét Kara og Erica Prosser voru einnig að leika vel. Birna Eiríksdóttir lék manna best í Fjölnisliðinu en staðan eftir 5 mínútna leik var 8-5 fyrir KR. Afslappaðari KR-ingar fóru þá að finna betri og betri leiðir að körfunni og áttu þær Bryndís Guðmundsdóttir og Sigrún Ámundadóttir oft fallegar fléttur sín á milli. Staðan eftir fyrsta leikhluta 20-11 og ljóst í hvað stefndi.
 
KR liðið hélt áfram að bæta í forystuna í öðrum leikhlutanum og komust í 43-20 þegar rúmar 3 mínútur voru eftir með fallegu "three-point playi" frá Kristbjörgu Pálsdóttur Kolbeinssonar en sá ritaði skýrslu leiksins af mikilli einbeittni. Þá lifnaði aðeins við Fjölnsstúlkunum sem náðu að minnka muninn í 47-30 í hálfleik með góðum körfum frá Evu Maríu Emilsdóttir og Brittney Jones.
 
Ef Fjölnisstúlkur töldu sig eiga einhverja möguleika þá voru þær vonir slökktar strax í byrjun seinni hálfleiks. KR liðið skoraði 9 stig á fyrstu 100 sekúndum hálfleiksins og staðan 56-30. Vörn heimamanna var farin að skila liðinu auðveldum körfum á hinum enda vallarins á meðan óöryggi og uppgjafartónn var í gestunum úr Grafarvogi. Staðan eftir þriðja leikhluta 81-42 og lokaleikhlutinn formsatriði eitt. Leiknum lauk síðan með 103-63 sigri heimamanna þar sem yngri leikmenn fengu að spreyta sig síðustu mínúturnar.
 
Leikur gestanna var í besta falli slakur í dag. Varnarleikur liðsins var dapur og "rótering" í vörninni ekki til staðar hvort sem liðið lék maður á mann eða eina af þeim fjölmörgu svæðisafbrigðum sem liðið reyndi í leiknum með litlum árangi. Brittney Jones dró vagninn og sá til þess að liðið hlaut ekki meira afhroð en raun bar vitni og lauk hún leik með 26 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Birna Eiríksdóttir bætti við 16 stigum, nær öll úr langskotum. Liðið saknaði greinilega Katinu mikið í dag bæði í fráköstum og í sóknarleik liðsins enda breidd liðsins takmörkuð og miklu munar um hvern mann.
 
Í annars jöfnu KR liði stóð Sigrún Sjöfn Ámundadóttir uppúr en hún skilaði þrefaldri tvennu: 24 stigum, 15 fráköstum og 10 stoðsendingum. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig góðan leik með 18 stig og 9 fráköst og Margrét Kara bætti við 23. Anna María Ævarsdóttir kom með 9 stig af bekknum auk fjögurra sóknarfrákasta en KR liðið vann frákastabaráttuna 53-22! Sóknarfráköst KR kvenna voru 24 og því 2 fleirri en heildarfrákastafjölda í gestanna í öllum leiknum.
 
KR liðið verður seint dæmt af þessari frammistöðu enda mótspyrnan lítil. Sigurinn var þó liðinu mikilvægur eftir erfiða tíma undanfarið og ætti að veita liðinu sjálfstraust fyrir komandi átök. Fjölnsliðið þarf hins vegar að girða sig í brók ef ekki á illa að fara. Liðið þarf að þétta varnarleik sinn sem um munar en KR liðið var með 60% skotnýtingu í 2ja stiga skotum og skoruðu 56 stig í teig Fjölnis á meðan þriggja stiga nýting liðsins var einungsi 5 af 36 eða 13,9%. Jafnframt þarf liðið að finna leiðir til að fá fleiri leikmenn til að skila stigum á töfluna. Leikmenn liðsins voru oft að fá fín færi nálægt körfunni en trú leikmanna á skotin sín virtist ekki mikil.
 
Punktar
*Örfáir áhorfendur lögðu leið sína í DHL-höllina í dag en leikurinn fór fram kl 16.30 á sunnudegi sem er ekki algengur leiktími
*Páll Kolbeinsson var ritari leiksins og stýrði ritaraborðinu af mikill röggsemd.
*Dómarar leiksins voru þeir Georg Andersen og Halldór Geir Jensson. Ekki fór mikið fyrir þeim sem er yfirleitt til marks um góða dómgæslu.
*KR komst með sigrinum aftur í 3. sætið en Haukar töpuðu sínum leik í kvöld gegn Val í framlengdum leik. Næsti leikur liðsins er einmitt gegn Val í Vodafone-höllinni á miðvikudag kl 19.15
*Fjölnir situr sem fastast á botninum með 4 stig ásamt Hamri sem tapaði fyrir Snæfell í dag í dramatískum leik. Í næstu umferð mætast einmitt Fjölnir og Hamar í Grafarvogi í uppgjör botnliðanna en leikurinn fer fram kl 19.15.
 
Mynd/ Karl West- Frá viðureign KR og Fjölnis 
Umfjöllun/ FFS
 
  
Fréttir
- Auglýsing -