19:47
{mosimage}
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.
Skríningar, eða hindranir eins og íslenska nafnið er sjálfsagt,hafa lengi verið hluti leiksins. Á dögunum barst mér myndbrot úr leik í efstu deild karla sem að færir heim sönnur á að dómgæsla í körfuknattleik er erfitt starf, jafnvel þó maður fái tækifæri til að skoða atvik aftur og aftur, ramma fyrir ramma. Atvikið sem um ræðir er að finna í meðfylgjandi link, en ég vil biðja ykkur lesendur góðir að meta:
Er þetta lögleg hindrun?
Á að láta leikinn halda áfram án þess að dæma nokkuð?
Á að dæma villu og þá á hvorn?
Linkur á myndbrotið:
Í október 2003 skrifaði ég pistil inná kkdi.is og gríp niður í hann hér:
„Skrín er hægt að setja á tvo vegu; þar sem sá sem skrína á sér skrínið eða þannig að hann á alls ekki möguleika á að sjá það (t.d. bakskrín). Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
A. Þegar skrín er sett innan sjónsviðs þess sem skrína á (jafnvel þó viðkomandi sjá ekki skrínið) er nóg að skrínarinn sé kyrr í eðlilegri stöðu þegar snerting verður, hvenær hann tók sér þá stöðu skiptir engu máli.
B. Þegar skrín er sett utan sjónsviðs þess sem skrína á, þarf að gefa honum möguleika á að sjá skrínið og bregðast við. Þannig er ekki nóg að skrínarinn sé kyrr í eðlilegri stöðu þegar snerting verður heldur skrínarinn að vera búinn að taka sér stöðu einu til tveimur skrefum frá þeim sem skrína á. Fjarlægðin fer eftir hraðanum á þeim sem skrína á. Því meiri hraði, því meiri vegalengd. Ef skrínarinn gefur þeim sem skrína á nægt rými er skríningin fullkomlega lögleg þó að sá sem lendir í skríninu sjái skrínarann aldrei. Honum var gefið sanngjarnt tækifæri á að sjá skrínið. Ef hinsvegar að skrínarinn tekur sér stöðu of nærri kann villa að vera dæmd á hann jafnvel þó að hann hafi verið algerlega kyrr og í löglegri stöðu þegar snertingin varð.“
Aftur að myndbrotinu. Nokkur grundvallaratriði:
Átti varnarleikmaðurinn möguleika á að sjá skrínið? (Hvort hann sá það skiptir ekki máli)
Fékk hann nægan tíma til að sjá skrínið og skipta um stefnu?
Var skrínarinn kyrr og í eðlilegri stöðu?
Ef annar leikmaðurinn var ólöglegur; tapaði hitt liðið á aðgerðum hans og því rétt að dæma villu? eða er möguleiki á “no-call” þar sem snertingin er eðilegur hluti leiksins og sá brotlegi hagnast ekki á broti sínu?
Ég verð að játa það að fyrst þegar ég sá þessa klippu var ég ekki viss. Þegar vafi leikur á hvort um sóknar- eða varnarvillu er að ræða þá segja áherslur FIBA að dæma skuli sóknarvillu.
Ég er búinn að eiga aðeins við myndbrotið. Reyndar versnar það aðeins að gæðum en skoðum þetta.
Það sem er stóra niðurstaðan er að atvik sem maður sér á augabragði geta tekið til margra mismunandi sjónarmiða og niðurstaðan ekki einföld. Þetta er erfitt starf. Hins vegar sem fyrrverandi þjálfari þá finnst mér varnarmaðurinn ekki sjá mann og bolta, skrínarinn setja góða hindrun sem varnarmaðurinn átti að geta séð, að auki er rúmur meter á milli þeirra þegar sóknarleikmaðurinn tekur sér stöðu. Þó varnarleikmaðurinn sjái ekki skrínarann þá gerir það skrínarann ekki ólöglegan. Mitt mat, eftir að hafa skoðað þetta í þaula, er að þetta sé löglegt skrín. Ég ber þó virðingu fyrir þeim sem eru mér ósammála, þetta er erfitt atvik. Það sem eftir er að meta er hvort á að dæma varnarvillu eða ekki neitt þar sem sóknin fær 3ja stiga skot. Varnarmaðurinn mun aldrei skilja af hverju ekkert var dæmt og það eykur líkurnar á grófum leik. Betra er að dæma villu á varnarmanninn fyrir að ryðja burtu löglegu skríni, þó hagnaður varnarmannsins hafi enginn verið.
Vonandi varpar þetta einhverju ljósi á skríningar og bakskríningar.
Samantekt:
Skrín er hægt að setja á tvo vegu; þar sem sá sem skrína á sér skrínið eða þannig að hann á alls ekki möguleika á að sjá það (t.d. bakskrín).
Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Stundum eru atvik ekki svört eða hvít heldur líka grá.
Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Fyrri skrif Kristins
Er að finna til vinstri á forsíðu karfan.is undir liðnum „Dómaramál með K.Ó.“
Myndbrot: FSu
Mynd: Sanne Berg