spot_img
HomeFréttir"Skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekist á við"

“Skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekist á við”

Stjarnan lagði Hauka í Ólafssal í kvöld í oddaleik í átta liða úrslitum Subway deildar kvenna, 73-75. Með sigrinum tryggði Stjarnan sér sæti í undanúrslitum, þar sem liðið mun mæta bikar- og deildarmeisturum Keflavíkur.

Tölfræði leiks

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnustelpna var að vonum kampakátur eftir sigurinn gegn Haukum í kvöld. „Þetta var all rosalegur leikur og spennan undir lokin var allt að því óbærileg. En við höfðum þetta og ég er einfaldlega að springa úr stolti af stelpunum; þær eru búnar að vera algjörlega frábærar og leggja sál og líkama að veði og uppskeran er eftir því,“ sagði Arnar og bætti við:

„Það var eðlilega mikil taugaspenna í byrjun leiks og liðin bæði voru að skjóta frekar undarlega framan af – miðið var stundum ansi skakkt hjá báðum liðum, svo vægt sé til orða tekið, en svo fór þetta að rúlla betur,“ sagði kátur og léttur Arnar. Hann telur framtíðina í Garðabænum vera bjarta og að þetta lið sem hann er nú að stjórna, en hættir með eftir úrslitakeppnina, vera eitt það skemmtilegasta, ef ekki það allra skemmtilegasta lið sem hann hefur þjálfað:

„Ég ætlaði aldrei að þjálfa stelpur eða konur – og var eiginlega ýtt í þetta verkefni fyrir um fjórum árum; og nú er bara orðið erfitt að losna við mig,“ sagði Arnar og hló dátt. Bætti við:

„Þetta er einfaldlega skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekist á við og mér þykir afar vænt um þetta lið. Liðið er gríðarlega efnilegt og ungt og ég tel að það sé komið á ansi góðan og athyglisverðan stað miðað við aldur og reynslu.“

Arnar var þó alveg með fæturnar á jörðinni fyrir næsta verkefni, sem eru undanúrslitin á móti bikar- og deildarmeisturum Keflavíkur:

„Ég ætla ekkert að fara að ljúga að þér eða neinum yfirhöfuð – árangur okkar gegn Haukum var frábær en ég held að við eigum nú ekki mikinn möguleika gegn Keflavík; þaðvita allir hversu gríðarlega sterkt lið Keflavíkur er og að segjast ætla að slá liðið út væri bara fáránleg bjartsýni og óraunsæi. Á móti kemur það að við erum að fara að skemmta okkur vel í seríunni gegn Keflavík – njóta vorsins, lífsins og körfuboltans.“

Fréttir
- Auglýsing -