Sigurður Gunnar Þorsteinsson miðherji Keflavíkurliðsins í Iceland Express deild karla vill reyna fyrir sér erlendis. Víkurfréttir greindu frá þessu í dag og höfðu samband við Sigurð.
Sigurður hefur enn ekki ákveðið hvort hann semji áfram við Keflavík eða reyni fyrir sér hjá öðru félagi hér á landi en hann er með samningstilboð frá Grindavík og Íslands- og bikarmeisturum KR í höndunum. Í samtali við Víkurfréttir sagðist Ísafjarðartröllið helst vilja reyna fyrir sér erlendis:
,,Ég er aðallega að reyna að komast að hjá erlendu liði. Það eru einhverjar þreifingar í gangi og ég er eiginlega til í hvað sem er ef boltinn er góður,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir í dag.
Sigurður var valinn í úrvalslið Iceland Express deildarinnar á lokahófi KKÍ á dögunum og var lykilmaður í liði Keflavíkur á tímabilinu.