Serbar tryggðu sér fyrir stundu sæti í úrslitum gegn Bandaríkjamönnum eftir frækilegan sigur á Frökkum í undanúrslitum, 85-90. Serbía steig varla feilspor allan leikinn, spiluðu glimrandi fallegan körfubolta með blöndu af langskotum, boltahreyfingu og grjóthörðu spili niðri á blokkinni. Frakkar hins vegar voru flatir lengst af í fyrri hálfleik, spiluðu skelfilega vörn sem Serbar nýttu sér til hins ítrasta.
Frakkar spýttu í lófana í seinni hálfleik, þó ég leyfi mér að efast um að hinn pollrólegi Vincent Collet hafi tekið hárblásarann á þá í klefanum. Vörnin hertist og þeim tókst að saxa hægt og rólega á muninn. Þristarnir, sem höfðu skoppað eins og múrsteinar af hringnum í fyrri hálfleik, fóru allt í einum að detta. Nicolas Batum var stórkostlegur í þessum leik og virtist sem andsetinn eftir að hann kom aftur inn á eftir að hafa farið út af í fyrri hálfleik eftir vænan skalla í andlitið frá einum Serbanum. Spilaði fantavörn og negli niður 8/11 þristum (að undanskildu miðjuskoti rétt áður en flautan gall).
Eftir frábært spil frá Thomas Huertel, Batum og framlagi frá Boris Diaw var þetta allt í einu orðinn tveggja stiga leikur og 17 sekúndur eftir.
Serbar héldu þó haus, spiluðu magnaðan varnarleik á þessum lokasekúndum og lönduðu svo sigrinum á vítalínunni.
Hjá Serbíu var Milos Teodosic frábær. Stýrði spili Serba með heraga og skaut 9/12 í heildina eins og hann væri bara meðvitundarlaus. 24 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar var línan frá honum. Nemanja Bjelica bætti við 10 stigum, 7 fráköstum og 5 stoðsendingum. Gamla brýnið Nenad Krstic var betri en enginn þrátt fyrir skelfilega hártísku, en hann gerði það sem hann þurfti að þeim 16 mínútum sem hann spilaði.
Batum var magnaður fyrir Frakka. Setti 35 stig, skaut 11/17 í leiknum og aðeins 5 af þessum skotum voru tekin fyrir innan þriggja stiga línuna. Boris Diaw setti 13 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Huertel bætti við 10 stigum og 6 stoðsendingum.
Miðað við frammistöðu Serba í þessum leik má búast við skemmtilegum úrslitaleik á sunnudaginn, þar sem þeir mæta Bandaríkjamönnum sem sigruðu Litháa í gærkvöldi. Frakkar og Litháar munu þar á undan leika um þriðja sætið á laugardaginn.