spot_img
HomeFréttirSchweers sagt upp í Garðabæ

Schweers sagt upp í Garðabæ

Chelsie Schweers mun ekki snúa aftur í raðir nýliða Stjörnunnar en Baldur Ingi Jónasson þjálfari Garðabæjarliðsins staðfesti við Karfan.is í dag að Schweers hefði verið sagt upp störfum. Sagði Baldur þar tvo samverkandi þætti eiga orsökina.

„Það voru kannski tveir samspilandi þættir sem komu þarna einkum við sögu. Í fyrsta lagi er ákveðinn áhættuþáttur sem spilar inní varðandi höndina á henni, þ.e. hversu fljótt hún myndi ná fyrri styrk eftir að hafa brákað bein í handarbaki. Í öðru lagi, sem að vissu leyti er veigameiri þáttur, þá hefur að reynst ljóst að hún er miklu frekar skotbakvörður en leikstjórnandi. Hún var því að spila stöðu sem hentaði henni og liðinu ekki jafn vel og vera mætti. Við munum því leita að nýjum erlendum leikmanni sem mun vonandi leysa það hlutverk. Við viljum taka það fram að Chelsie er augljóslega frábær leikmaður og því var þessi ákvörðun síður en svo auðveld. Óskum henni jafnframt velfarnaðar í þeim framtíðarverkefnum sem hún kemur til með að taka sér fyrir hendur,“ sagði Baldur við Karfan.is.

Aðspurður um hvort nýr erlendur leikmaður væri kominn í raðir Stjörnunnar fyrir fyrsta leik á nýja árinu sagði Baldur að allt yrði reynt til þess en það væri enn óljót hvort það myndi takast. 

Fréttir
- Auglýsing -