Breiðablik komst í kvöld upp í 2. sæti í 1. deild karla með öruggum sigri gegn Ármenningum. Staða liðsins er athyglisverð en Blikar tefla ekki fram neinum erlendum leikmanni og aðeins fimm leikmenn liðsins er eru komnir upp úr unglingaflokki sökum aldurs. Karfan.is ræddi við Sævald Bjarnason þjálfara liðsins og við inntum hann eftir því hvort Blikar væru að senda útlendingakapphlaupinu langt nef.
,,Við verðum að vinna þessa leiki eins og í kvöld ef við ætlum okkur að vera í toppbaráttunni, Ármenningar byrjuðu vel og áttu góða spretti en við spiluðum mjög vel í þriðja leikhluta og unnum hann 26-12. Þriðji og fyrsti voru okkar bestu leikhlutar í kvöld en botninn datt smá úr þessu hjá okkur síðustu þrjár mínúturnar,“ sagði Sævaldur en þá var löngu ljóst í hvað stefndi.
Eruð þið að senda útlendingakapphlaupinu langt nef?
,,Já já, við viljum endilega senda því langt nef. Þetta er komið út í öfgar í bæði fyrstu deild og Iceland Express deildinni. Í dag byrjum við leikinn með þrjá leikmenn sem eru í unglingaflokki og svo erum við aðeins með fimm leikmenn sem komnir eru upp úr unglingaflokki. Auðvitað hefur hver sínar ástæður fyrir því af hverju þeir eru með erlenda leikmenn,“ sagði Sævaldur og herti svo róðurinn.
,,Við höfum spilað vel undanfarið og erum tilbúnir í þá áskorun að spila á móti sterkum liðum, næst eigum við KFÍ í bikarnum og svo þrír stórir leikir framundan gegn liðum sem hafa erlenda leikmenn. Næstir á dagskrá eru Skallagrímsmenn í deildinni og þeir eru með hörku lið, við mætum svo Þór Akureyri en bæði þessi lið eru með fjölda erlendra leikmanna og það hleypir kappi í kinnar minna manna. Það er gaman þegar tekið er eftir því að íslenskt lið geti spilað vel án erlendra leikmanna. Breiðablik er með marga unga stráka og svo Þorstein Gunnlaugsson sem hefur verið að spila frábærlega fyrir okkur en þetta verður erfitt og við verðum að vera á tánum. Við höfum samt sýnt það að íslensku strákarnir okkar eru ekkert slakari en þessi lið með erlenda leikmenn,“ sagði Sævaldur sem var ánægður með frammistöðuna hjá Ágústi Orrasyni sem snúinn er aftur til félagsins.
Ágúst var við nám í lýðháskóla í Danmörku og í kvöld í sínum fyrsta leik í 1. deildinni þetta tímabilið var kappinn stigahæstur í liði Blika með 17 stig og 4 fráköst.