spot_img
HomeFréttirRúnar Ingi: Gerðum það sem við ætluðum okkur

Rúnar Ingi: Gerðum það sem við ætluðum okkur

23:49
{mosimage}

(Rúnar Ingi)

Leikstjórnandinn Rúnar Ingi Erlingsson átti góðan leik með Blikum í kvöld þegar þeir lögðu bikarmeistara Stjörnunnar 83-78 í Smáranum í Kópavogi. Rúnar Ingi gerði 15 stig í leiknum og stal 3 boltum. Kappinn sagði að nú væri sæti í úrslitakeppninni í sjónmáli og á það væri stefnt þrátt fyrir að upphafleg markmið Blika væru að tryggja sæti sitt í úrvalsdeild.

,,Þetta var rosalega mikilvægt, ég vil ekki gefa neitt út en þetta var eitt af þeim atriðum sem við ætluðum að gera til að tryggja sæti okkar í deildinni. Við eigum tvo leiki eftir gegn Njarðvík og Tindastól þar sem við ætlum okkur sigur,“ sagði Rúnar vígreifur en Blikar eiga harma að hefna gegn Njarðvíkingum sem lögðu nýliðana í Smáranum eftir tvíframlengdan leik.

,,Þetta var bara æðislegt og góð stemmning í húsinu og við sögðum fyrir þennan leik að þetta væri bara úrslitaleikur og við gerðum það sem við ætluðum okkur. Fyrir okkur var þetta þriggja stiga leikur og nú eigum við innbyrðisviðureignina á þá en við höfum sagt allan tímann að okkar fyrsta markmið sé að halda sætinu í deildinni en þegar maður sér sæti í úrslitakeppninni innan seilingar þá fer maður á eftir því og reynir að hirða það,“ sagði Rúnar sem gerir sér vel grein fyrir hverjir andstæðingarnir gætu orðið ef Blikar kæmust í úrslitakeppnina.

,,Við náum vonandi 7.-8. sæti í úrslitakeppninni og þá mætum við einu af tveimur bestu liðum landsins, KR eða Grindavík,“ sagði Rúnar en bætti við að bikarsigur Stjörnunnar gegn KR sem og deildarsigur Snæfells og Stjörnunnar á Grindavík hefði sýnt öðrum liðum í deildinni að toppliðin eru ekki ósigrandi.

,,Ef við náum að mæta í leiki á móti Grindavík eða KR vel stemmdir en ekki eins og við gerðum gegn þeim í deildinni þá er allt hægt og það hefur margoft sýnt sig í körfuboltanum. Það getur allt gerst,“ sagði Rúnar Ingi.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -