spot_img
HomeFréttirReynslan vó þungt í lokin í Grindavík

Reynslan vó þungt í lokin í Grindavík

 Það má segja að reynslan hafi gert útslagið þegar að Grindvíkingar rétt mörðu Njarðvíkinga með 73 stigum gegn 65 í röstinni í kvöld. Njarðvíkurliðið kom nokkuð á óvart og héldu í við Grindvíkinga allt til loka leiks en á endasprettinum voru heimamenn yfirvegaðir og kláruðu með sigri. 
Það voru Grindvíkingar sem hófu leikinn betur. Þeir skoruðu nánast að vild og vörn Njarðvíkingar var í takti við það, arfa slök. Fljótlega í fyrri hálfleik fékk Sigurður Þorsteinsson sína þriðju villu og spila því lítið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en hann hafði verið nokkuð drjúgur gegn Cameron Echols.  En með J Nathan Bullock í fararbroddi komust Grindvíkingar í nokkuð þægilegt forskot en Njarðvíkingar voru ekki á því að játa sig sigraða. 
 
40:32 voru hálfleikstölurnar og í þeim seinni hófu Njarðvíkingar á því að minnka muninn niður í 5 stig. En þá kom 11:2 sveifla hjá þeim gulu og munurinn allt í einu aftur komin í 14 stig.  Njarðvíkingar náðu hinsvegar aftur undir lok þriðja leikhluta góðu áhlaupi og náðu að minnka muninn niður í eitt stig fyrir síðasta leikhlutan 57:56 og allt stefndi í hörku loka fjórðung. 
 
Einhvern vegin voru það hinsvegar Grindvíkingar sem virtust vera með þetta í sínum höndum. Þeir voru þetta 3 til 7 stig yfir allan fjórðunginn en með örlítilli heppni á lokakaflanum hefðu Njarðvíkingar getað gert meiri usla og þá hugsanlega náð sigrinum. 
 
 
Njarðvíkingar geta svo sem verið nokkuð sáttir með sitt í kvöld. Þeir voru alls ekki að spila vel og eiga þó nokkuð mikið inni. Þessir ungu leikmenn sem hófu leiktíðina svo skínandi vel virðast hafa tapað því gríðarlega sjálfstrausti sem þeir hófu leiktíðina með.  Eitthvað sem þarf að laga og/eða hugsanlega lagast með tímanum.  Svo virðast þeir hálf týndir þegar erlendu leikmennirnir eru teknir útaf og engin vill taka af skarið, kjörið tækifæri til að láta ljós sitt skína. En það má ekki gleyma að þetta er nánast unglingaflokkur klúbbsins og nægur tími á næstu árum til að slá í gegn. 
 
Grindvíkingar hafa oft spilað betur og hálfgerð værukærð einkenndi leik þeirra á köflum. Þeir kláruðu þennan leik nánast bara á vananum að vinna en þurfa heldur betur að spíta í lófana gegn sterkari liðum ef þeir ætla sér þann stóra í vetur. Gríðarlega sterkt lið og það verður seint af þeim tekið en það þarf að halda haus og ef einhver ætti að getað komið því að hjá þeim er varla betri maður í hlutverkið en einmitt Helgi Jónas Guðfinsson.
 
Tölfræði leiksins
Fréttir
- Auglýsing -