„Byrjunin gæti ekki verið mikið betri,“ sagði sáttur Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka eftir sigurinn í kvöld en Haukar unnu sinn annan leik og eru sem stendur efstir í deildinni.
„Með allri virðingu fyrir Tindastól þá eru margir af þeirra leikmönnum nýkomnir til landsins og ekki orðnir full smurðir en við erum aftur á móti fullsmurðir og sýndum það í þessum leik,“ bætti hann við en Haukaliðið var sannfærandi í leiknum og spiluðu flottan bolta á löngum köflum.
„Okkar fyrsti alvöru leikur verður svo sá næsti á móti KR og Haukar hafa ekki unnið sína fyrstu þrjá leiki á íslandsmóti síðan 1998 þegar að ég var að spila með liðinu. Það verður því áskorun fyrir þessa stráka að komast í 3-0.“
Haukar misstu niður 18 stiga forskot í þriðja leikhluta gegn Stólunum og svipað var uppi á teningnum gegn Hamri á föstudaginn en þá misstu Haukar niður 11 stiga forskot og Hamar komst yfir. Pétur var hvergi smeikur við að missa frá sér leikina þrátt fyrir spretti þessara liða og hafði litlar áhyggjur.
„Það skiptir svo sem ekki máli hvað gerist í millitíðinni heldur það sem gerist eftir 40 mínútur. Við vinnum þennan leik með 19 stigum og þeir eyddu mikilli orku í að ná okkur en við tókum þetta í lokin,“ sagði Pétur og hélt upp í klefa.
Ljósmynd/ – Lærisveinar Péturs hafa byrjað leiktíðina sterkt og mæta deildarmeisturum KR í næsta leik.