spot_img
HomeFréttirPeter: Getum unnið ef við leikum okkar besta bolta

Peter: Getum unnið ef við leikum okkar besta bolta

Landsliðsþjálfari Íslands Peter Öqvist segir keppnisfyrirkomulag EM í körfuknattleik spennandi og að skemmtilegt verði fyrir Íslendinga að sjá suma af sterkustu leikmönnum heims mæta til landsins. Um helgina var dregið í riðla Evrópukeppninnar sem fram fer 2013 og lenti Ísland í A-riðli með risavöxnum körfuboltaþjóðum á borð við Serba, Svartfellinga og Ísraela. Peter trúir því að Ísland geti unnið leiki í riðlinum nái landsliðið að leika sinn besta bolta.
,,Við lentum í sterkum riðli, mögulega þeim erfiðasta af öllum. Í augnablikinu tel ég að það sé of snemmt að ræða um einhver úrslit eða annað slíkt. Margt getur gerst hjá leikmönnum með tilliti til meiðsla og annars. Þess í stað ættum við að einbeita okkur að okkar eigin frammistöðu og þeirri staðreynd að við höfum góðan hóp af íslenskum leikmönnum sem eru að standa sig vel með sínum klúbbum, á Íslandi og annarsstaðar í Evrópu. Þetta veitir okkur möguleika til að standa okkur á háu keppnisstigi,“ sagði Peter sem hefur fulla trú á því að Ísland geti unnið leiki í riðlinum.
 
,,Ég trúi því að við getum vel unnið leiki á heimavelli ef við leikum okkar besta bolta, jafnvel þó um mjög sterk lið sé að ræða. Við verðum hinsvegar að gera okkur grein fyrir því að Serbar, Svartfellingar og Ísraelar eru gríðarlega sterk lið og við verðum að vinna á heimavelli og einhverja útileiki gegn sterkum liðum ef við ætlum okkur að komast áfram sem er risavaxið verkefni. Keppnisfyrirkomulagið er mjög spennandi fyrir alla áhugamenn um körfuknattleik. Íslenskir körfuknattleiksunnendur munu fá tækifæri til að fylgjast með svakalegum leikmönnum á borð við Tedosic, Pekovic og Omri Casspi.“
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -