Skæðasta bakvarðapar Iceland Express deildarinnar á síðasta tímabili, þeir Marcus Walker og Pavel Ermolinskij hjá KR, fara nú yfir sín mál þessi misserin. Hrafn Kristjánsson sagði við Karfan.is í dag að ljóst hefði verið frá upphafi að Pavel hefði í hyggju að líta út fyrir landsteinana að loknu tímabilinu og þá sagði Hrafn að Marcus Walker þyrfti fátt að sanna hérlendis.
,,Það var ljóst fyrir tímabilið að Pavel ætlaði að líta í kringum sig utan landssteinana að tímabilinu loknu. Okkar ósk er eðlilega sú að hafa hann hjá KR en hann fær nægt rými og nógan frið til þess að finna sér eitthvað spennandi erlendis. Það er ekki stefna félagsins að standa í vegi þeirra leikmanna sem vilja reyna fyrir sér á stærra sviði“ sagði Hrafn en hvað með byssukúluna Marcus Walker, tókst að fá hann til að semja á nýjan leik við KR?
,,Það er á kristaltæru að á Íslandi spilar Marcus Walker ekki annars staðar en hjá KR, það er frágengið, en það er ekki líklegt að hann verði hér á næstu leiktíð, það er fátt fyrir hann að sanna hér á landi eftir síðustu leiktíð. Walker er kominn með mjög stóran og öflugan umboðsmann sem gerir sér góðar vonir um framhaldið, verði þær vonir að veruleika yrði það gleðiefni þó það þýddi að hann snéri ekki aftur.“
Ef þessir tveir sterku leikmenn verða ekki á mála hjá KR á næsta tímabili þá eru þetta tölurnar sem hverfa af gólfinu hjá röndóttum:
Pavel Ermolinskij: 15,0 stig, 11,6 fráköst, 8,0 stoðsendingar og 24,8 framlagsstig í leik.
Marcus Walker: 25,5 stig, 3,5 fráköst, 3,5 stoðsendingar og 23,7 framlagsstig í leik.