Leikmaður Los Angeles Clippers, Paul Pierce, skrifaði fyrr í dag undir samning við sitt fyrra félag, Boston Celtics. Samningurinn er aðeins formsatriði, svo að leikmaðurinn geti lagt skóna á hilluna sem leikmaður Celtics, en þar spilaði hann lungað úr feril sínum og vann sinn eina meistaratitil á ferlinum árið 2008.
Pierce lék í heildina í 19 ár í deildinni, þar af voru 15 með liði Celtics, en aðeins John Havlicek hefur spilað fleiri fyrir félagið, eða 16. Þá leiðir hann alla hjá félaginu í þriggja stiga körfum, stolnum boltum og vítum, en hann er einnig annar stigahæsti leikmaður félagsins frá upphafi með yfir 24 þúsund skoruð.
Pierce var í 10 skipti valinn í stjörnuleik deildarinnar, var í 4 skipti valinn í eitthvað þriggja úrvalsliða deildarinnar og þá var hann einnig valinn verðmætasti leikmaður úrslitanna þegar að liðið vann titilinn árið 2008.