spot_img
HomeFréttirÖrvar Kristjánsson tekur við Fjölni

Örvar Kristjánsson tekur við Fjölni

 
Fjölnismenn hafa ráðið nýjan þjálfara á liðið sitt í Iceland Express deild karla en sá heitir Örvar Kristjánsson og fær nú sína eldskírn í úrvalsdeildinni. Örvar tekur við starfinu af Tómasi Holton sem sagði skilið við Fjölni fyrr í vikunni. Örvar er borinn og barnfæddur Njarðvíkingur og hefur m.a. verið aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga í úrvalsdeild en þetta er í fyrsta sinn sem kappinn tekur við stýrinu.
,,Það tók ekki langan tíma að ákveða þetta þegar starfið bauðst, ég hafði strax mikinn áhuga á þessu enda kominn tími á það hjá manni að hoppa í djúpu laugina,“ sagði Örvar í samtali við Karfan.is en hann gerði þriggja ára samning við Grafarvogsliðið.

 
Aðspurður um stöðu Fjölnis í deildinni með tvo tapleiki í jafnmörgum umferðum sagði Örvar:
,,Það er lítið að marka byrjunina enda voru þetta tveir erfiðir leikir, mótið er rétt byrjað og ég stjórna ekki minni fyrstu æfingu fyrr en annað kvöld. Við setjum okkur svo markmið með tíð og tíma,“ sagði Örvar en Bjarni Magnússon verður áfram aðstoðarþjálfari liðsins.
 
,,Ég lagði áherslu á það að Bjarni yrði áfram enda hefur Fjölnir unnið gott starf með yngri flokka félagsins og Bjarni núverandi þjálfari í unglinga- og drengjaflokki svo það lá beinast við að hann yrði áfram aðstoðarþjálfari,“ sagði Örvar sem er spenntur fyrir verkefninu.
 
,,Ég er bæði gríðarlega spenntur og þakklátur fyrir þetta tækifæri og mikil tilhlökkun við að hefjast handa. Ég tek við flottu búi af Tómasi Holton sem hefur gert góða hluti hjá félaginu.“
 
Fyrsta æfing Örvars með Fjölnisliðið verður annað kvöld en fyrsti leikur hans með liðið verður næstkomandi mánudag þegar Hamarsmenn koma í heimsókn í Dalhúsin.
 
Ljósmynd/ Karl West Karlsson: Steinar Davíðsson formaður KKD Fjölnis og Örvar Kristjánsson skrifa undir samninginn í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -