spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Hauka á Njarðvík

Öruggur sigur Hauka á Njarðvík

Haukar og Njarðvík áttust við í Schenkerhöllinni í kvöld í 16. umferð úrvalsdeildar kvenna. Fyrir leikinn höfðu liðin í tvígang att kappi í deildinni í vetur og sigruðu Haukar báða leikina mjög örugglega. Fór svo að Haukar lönduðu einnig öruggum sigri í kvöld en lokatölur voru 87-55.

Haukar sem leika nú án Helenu Sverrisdóttur tefldu fram nýjum erlendum leikmanni í kvöld en Whitney Frazier gekk nýverið til liðs við Hauka í stað Cherise Daniels. Whitney Frazier er Íslendingum góðkunnug en hún lék með Grindavík tímabilið 2015-2016.

Viðsnúningurinn
Ekki er hægt að tala um viðsnúning í þessum leik þar sem hann var nánast einstefna frá upphafi til enda. Haukar byrjuðu leikinn mun betur og náðu mest 14 stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar áttu fá svör við góðri vörn Hauka og skoruðu ekki nema 27 stig í fyrri hálfleik. Haukar héldu áfram að auka forystu sína jafnt og þétt í gegnum allan leikinn og sigruðu hann örugglega með 22 stigum, 87-55.

Framlagshæstu leikmenn
Whitney Frazier var stigahæsti leikmaður Hauka í sínum fyrsta leik með liðinu, skoraði 27 stig auk þess að taka 17 fráköst og gefa 8 stoðsendingar. Dýrfinna Arnardóttir bætti við 19 stigum fyrir Hauka, Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 12 stig og gaf 9 stoðsendingar og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 11 stig og tók 9 fráköst.

Hjá Njarðvík var Shalonda Winton atkvæðamest með 18 stig og 10 fráköst og þá setti Hrund Skúladóttir 11 stig fyrir gestina auk þess að taka 4 fráköst.

Tölfræðin lýgur ekki
Skotnýting Hauka var mun betri en Njarðvíkur í leiknum eða 60% á móti 31% í tveggja stiga skotum og 26% á móti 18% í þristum. Þess fyrir utan þá tóku Haukar 51 frákast á móti 36 fráköstum Njarðvíkur.

Kjarninn
Haukar eru í bullandi toppbaráttu í deildinni, tveimur stigum á eftir Val sem situr í efsta sætinu og jafnar Keflavík að stigum. Hlutskipti Njarðvíkur er ólíkt en þær leita enn að sínum fyrsta sigri í deildinni í vetur og sitja í neðsta sæti hennar.

Næsti leikur Haukar er á móti Snæfelli í Stykkishólmi næstkomandi sunnudag en Njarðvík fær Stjörnuna í heimsókn á miðvikudaginn.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -