Langþráður leikur KFÍ við Íslandsmeistarana úr Grindavík var loks á dagskrá í kvöld. Í upphafi hans var þó ekki að sjá að heimamenn væru tilbúnir því gestirnir keyrðu af fullum krafti yfir KFÍ frá byrjun. Eftir rúmlega þriggja mínútna leik var staðan orðin 6-18 fyrir Grindavík og heldur betur gallbragð í munni stuðningsfólks KFÍ. Eftir þetta tók við kafli þar sem barátta Ísfirðinga var nokkuð góð og litu þeir vel út á þeim kafla sem og í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik var 40-45 og góður möguleiki á spennandi seinni hálfleik.
KFÍ náði að halda í við Grindvíkinga fyrstu 2-3 mínútur þriðja leikhluta en svo ekki söguna meir. Eftir að hafa náð að minnka forskot gestanna aftur niður í 5 stig (47-52) með 3ja stiga körfu frá Tyrone urðu algjör kaflaskipti í leiknum og Suðurnesjamenn litu aldrei um öxl. Höfðu örugg tök á leiknum og sigur þeirra aldrei í neinni hættu. Grindvíkingar voru einfaldlega nokkrum númerum og stórir fyrir lið KFÍ að þessu sinni.
Niðurstaðan því sú að Grindavík trónir á toppi deildarinnar, á meðan Ísfirðingar sitja á botninum ásamt Fjölni og ÍR. Framundan barátta fyrir tilveru þessara liða í Domino´s deildinni, en Grindavík heldur áfram að glíma við Snæfell um deildarmeistaratitil og heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.
Eins og svo oft áður var Damier allt í öllu hjá KFÍ. Mirko átti stórleik og Tyrone var góður. Þetta er samt engan veginn nóg og ef KFÍ ætlar sér sigur í næstu leikjum verða aðrir að stiga fram. Samuel og Aaron voru mjög traustir í heilsteyptu liði Grindavíkur í kvöld en allir komust þeir á blað nema Ryan Petinella sem hefur stundum verið beittari í sókninni. Það getur verið erfitt að halda einbeitingu gegn veikari liðunum en samt sýnist mér að meistararnir þurfi að gera meira en þeir sýndu í kvöld ef þeir ætla að verja titilinn. Dómarar leiksins voru traustir og höfðu góð tök á leiknum.
KFÍ: Damier Erik Pitts 37/9 fráköst/5 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 28/7 fráköst, Tyrone Lorenzo Bradshaw 14/11 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 5/6 fráköst, Hlynur Hreinsson 5, Jón Hrafn Baldvinsson 2/5 fráköst, Guðmundur Jóhann Guðmundsson 2, Stefán Diegó Garcia 0, Haukur Hreinsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0.
Grindavík: Aaron Broussard 25/8 fráköst, Samuel Zeglinski 24/4 fráköst og 7 stoð, Jóhann Árni Ólafsson 21/6 fráköst og 4 stoð, Þorleifur Ólafsson 15/4 fráköst og 4 stoð, Björn Steinar Brynjólfsson 9, Ólafur Ólafsson 7, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/11 fráköst og 4 stoð, Daníel G. Guðmundsson 5, Ryan Petinella 0/6 fráköst.
Dómarar: Aðalsteinn Hrafnkelsson, Davíð Tómas Tómasson og Kristinn Óskarsson.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Halldór Halldórsson