spot_img
HomeFréttirÖruggt hjá Njarðvík í Gryfjunni

Öruggt hjá Njarðvík í Gryfjunni

Njarðvík vann sinn þriðja leik í röð í Subwaydeild kvenna þegar liðið skellti Breiðablik örugglega 85-45. Sanja Orozovic lék ekki með Blikum í kvöld og munaði um minna en Sanja var viðstödd í borgaralegum klæðum.

Fyrri í dag tilkynntu Njarðvíkingar að hin sænska Emma Adriana væri fari frá félaginu og lék því ekki með í kvöld.

Skotnýting liðanna var við svipað hitastig og utandyra í upphafi leiks. Eftir sjö mínútna leik var staðan aðeins 6-6. Erna Hákonardóttir kom þá af tréverkinu og hjó á hnútinn með tveimur þristum og Njarðvík sleit sig frá, heimakonur leiddu 17-6 eftir fyrsta leikhluta.

Liðin voru áfram róleg í stigaskorinu í örðum leikhluta, Njarðvík vann leikhlutann 14-13 og leiddu því 31-22 í hálfleik. Anna Soffía var að spila vel fyrir gestina með 11 stig í hálfleik en Raquel Laneiro var með 9 hjá Njarðvík og Erna Hákonardóttir 7. Athygli vakti að Collier var með öllu stigalaus í fyrri hálfleik en var þó með 8 fráköst – ekki oft sem þessi stigamaskína skorar ekki í fyrri hálfleik, ef það hefur þá hreinlega gerst hjá henni hérlendis.

Njarðvíkingar héldu Blikum í aðeins þremur stigum á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta og leiddu 49-25. Þar með var björninn svo gott sem unninn. Njarðvík leiddi 61-29 eftir þrjá leikhluta og kláruðu svo leikinn 85-45 þar sem Dzana Crnac kom öflug inn af bekk Njarðvíkinga í síðari hálfleik og skilaði 11 stigum.

Raquel Laneiro og Erna Hákonardóttir gerðu báðar 16 stig í liði Njarðvíkiinga í kvöld en hjá Blikum var Rósa Björk Pétursdóttir með 17 stig og 12 fráköst.

Njarðvík komið með 22 stig í 4. sæti deildarinnar eftir sigur kvöldsins en Blikar áfram í næstneðsta sæti með 6 stig, 4 stigum á undan ÍR sem vermir botnsæti deildarinnar.

Tölfræði leiks

Mynd / Njarðvík FB

Fréttir
- Auglýsing -