Næsta Pollamót Þórs í körfuknattleik verður haldið dagana 3. og 4. október í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mótið í fyrra var það allra fjölmennasta frá upphafi og komust færri að en vildu. Opnað hefur verið fyrir skráningu og hvetur mótsnefnd lið til að ganga frá skráningu sem fyrst.
Mótið hefst seinnipart föstudags auk þess sem spilað verður allan laugardaginn. Loks verður vegleg matarveisla og lokahóf á laugardagskvöldinu. Sem fyrr verður keppt í þremur flokkum: Karlar 25 til 39 ára; karlar 40 ára og eldri og konur 20 ára og eldri.
Síðasta mót var það best heppnaða frá upphafi og skemmtu keppendur sér afar vel frá morgni og fram á rauða nótt. Aðstandendur Pollamóts Þórs í körfuknattleik stefna að því að mótið í ár verði glæsilegra og stærra en nokkru sinni fyrr.
Þeir sem eru áhugasamir um að skrá lið til leiks er bent á að hafa samband við mótsnefnd með því að senda tölvupóst á [email protected]. Fyrstir koma, fyrstir fá.
Nánari upplýsingar um mótið og mögnuð skemmtiatriði verða birtar þegar nær dregur.
Áfram körfubolti!
Myndir: Nokkrar svipmyndir frá síðasta Pollamóti Þórs í körfuknattleik og sigurliðin.











