22:19
{mosimage}
(Ólöf Helga Pálsdóttir)
Baráttujaxlinn Ólöf Helga Pálsdóttir var frákastahæsti maður vallarins í kvöld þegar Grindavík lagði KR 70-60 í annarri viðureign liðanna í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna. Ólöf Helga gerði 9 stig og tók 12 fráköst í lágvöxnu Grindavíkurliði sem tók alls 45 fráköst í kvöld.
,,KR-ingar eru rosalegir í fráköstunum svo það var ekkert annað í boði fyrir okkur en að berjast og fara á eftir öllum boltum. Frákastabaráttan var það eina fannst mér sem var að skilja á milli liðanna í síðasta leik og því um að gera fyrir okkur að berjast vel,“ sagði Ólöf sem ætlar sér ekkert annað en sigur í oddaleiknum.
,,Svo framarlega sem við vinnum oddaleikinn þá er mér alveg sama hverjum við mætum,“ sagði Ólöf sem er einn reynslumesti leikmaðurinn í ungu ,,hreinræktuðu“ Grindavíkurliði. ,,Til að byrja með þá erum við allar uppaldir Grindvíkingar og við erum ekki með einn einasta leikmann úr öðru liði svo við erum stoltir Grindvíkingar og þurfum engan kana,“ sagði Ólöf vígreif í leikslok þegar hún var innt eftir því hvort þær söknuðu þess að vera með erlendan leikmann innan sinna raða.