Öflugur Suðurlandsskjálfti reið yfir í kvöld. Fyrstu kippa varð vart kl 19.15 að staðartíma og upptökin voru í Iðu á Selfossi. Stöðug virkni stóð yfir í einn og hálfan tíma og náði hámarki frá 20.30-20.45 með nokkrum öflugum hrinum þar sem allt lék á reiðiskjálfi og sýndu mælar hámarkið 95-87 þegar allt datt loks í dúnalogn.
Hvergerðingar, sem mættir voru í heimsókn til FSu og toppsæti 1. deildar karla að veði, ættu að vera alvanir skjálftum af þessu tagi en virtust slegnir út af laginu fyrstu mínúturnar. Heimamenn í Iðu léku á als oddi og Ari Gylfason sullaði m.a. á þá þremur þristum strax í fyrsta leikhluta. Mestur varð munurinn 12 stig eftir 7 mínútna leik, 23-11, en munurinn að loknum fyrsta leikhluta var 9 stig, 26-17.
Í öðrum leikhluta náði Hamar áttum og saxaði á forskot FSu, 32-27 eftir 13 mín. og 39-34 um miðjan leikhlutann. Eftir 18 mínútna leik rykkti heimaliðið aftur fram úr, 47-36, en Hamar átti síðasta orðið fyrir hlé, 3-9, og munurinn 4 stig í hálfleik, 50-46.
Um miðjan þriðja hluta voru gestirnir búnir með gríðarlegri baráttu að jafn leikinn 58-58, og allt var í járnum og á suðupunkti fram í miðjan fjórða leikhluta. Hamar tók frumkvæðið á þessu tímabili og náði mest 7 stiga forystu. Eftir 34 mínútur leiddu gestirnir 75-79 en mínútu seinna höfðu FSu-strákar haft endaskipti á öllu saman og leiddu 86-81. Þeir litu ekki til baka úr því. Þó Hamar gerði sitt til að halda spennu í leiknum og minnkaði muninn í 3 stig, 90-87 þegar tvær mínútur voru eftir, þá sökktu frændurnir Ari og Hlynur Hveragerðisskútunni hvor með sínum tveimur þristum á lokakaflanum og úrslitin eins og fyrr segir 95-87.
Leikurinn var mjög skemmtilegur og bauð upp á allt sem áhorfendur vilja sjá á íþróttakappleik – mikil átök, baráttu, glæsilega tilburði og msitök. Collin Pryor og Þorsteinn Gunnlaugsson háðu sannkallað stríð undir körfunum og mátti ekki á milli sjá þegar upp var staðið, báðir spiluðu allar 40 mínúturnar sem í boði voru, hvor um sig vann eina og eina orrustu en þegar talið er upp úr pokanum er nokkuð jafnt á komið, Collin með 12 stig, 14 fráköst, 3 stoðsendingar og 21 í framlag en Þorsteinn 13 stig, 10 fráköst, 3 stolna, 50% nýtingu og 17 framlagsstig.
Hjá Hamri var það annars Örn Sigurðarson sem hélt liði sínu löngum stundum á floti sóknarlega, m.a. 5/7 í þristum (71%) og 10/15 (67%) í heildina, 27 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 varin skot. Hann var hæstur allra í framlagi með 36 stig, enda átti hann frábæran leik. Julian Nelson átti fínan dag, leysti nú leikstjórnandahlutverkið hjá Hamri en Bjartmar vermdi tréverkið og Birgir Þór að mestu líka. Nelson skoraði 19 stig og gaf 10 stoðsendingar. Snorri Þorvaldsson var seigur með 15 stig og 6 fráköst. Halldór Gunnar Jónsson hitti úr báðum skotunum sínum og skoraði 5 stig, Siggi Haff. skoraði 4 og Kristinn Ólafsson sömuleiðis.
FSu-liðið er sívaxandi og breytingin frá því í fyrra áberandi jákvæð. Frábær liðsandi, samheldni og leikgleði skilar því þeim góða árangri að fara í jólafríið á toppi deildarinnar eftir 7 sigurleiki í röð. Áður er minnst á öflugt framlag Collins Pryor sem var akkerið í varnarleik liðsins en hefur oft áður verið meira áberandi sóknarlega. Það gerir bara ekkert til því nóg er af mönnum sem geta skorað. Þar fer fremstur í flokki Ari Gylfason sem átti mjög góðan dag. Hann byrjaði með látum, hafði hægar um sig um miðbik leiks en þegar sýna þurfti trompin í lokin brást hann ekki, stal boltum og skoraði mikilvæga þrista, alls 7/13 (54%) í þriggjastigatilraunum, 53% skotnýtingu, 4 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 29 framlagsstig.
Hlynur Hreinsson átti sinn besta leik í vetur, skoraði 20 stig og var afar mikilvægur á lokakaflanum; 4/7 í þristum (57%), 4/4 í vítaskotum og 9 stoðsendingar gáfu honum 23 í framlag. Erlendur Ágúst Stefánsson var mjög öflugur. Hans hlutverk í vörn er afar mikilvægt og skiptust þeir Þórarinn Friðriksson (2 stig) á að gæta Nelsons og gerðu það báðir vel, enda þekktir harðhausar báðir. Elli skoraði 18 stig og tók 4 fráköst. Maciej stóð sína plikt með 8 stig og 6 fráköst, Svavar Ingi 4 stig, Geir Elías skoraði úr sínu skoti (auðvitað þristur) og Birkir skoraði sömuleiðis 3 stig. Arnþór Tryggvason kom líka inn á og gerði gagn, þó hann hafi verið langdvölum í Noregi í haust vegna vinnu og lítið getað æft.
Allir 10 leikmenn FSu komu inn á og lögðu hver og einn sitt mikilvæga pund á vogarskálarnar. Þetta var mikilvægur liðssigur hjá ungu og efnilegu liði. En þegar tölfræði liðanna er borin saman kemur í ljós hve jöfn þau eru. Hamar er með betri skotnýtingu (46%/43%), fleiri fráköst (36/34), FSu betri vítanýtingu (83%/76%), stoðsendingar eru jafnmargar (22/22) en FSu með fleiri stolna (8/6), færri tapaða (10/14) og aðeins hærra liðsframlag (105/98).
Þeir Georg Andersen og Aðalsteinn Hrafnkelsson dæmdu leikinn og lögðu þá línu að leyfa miklar snertingar. Það var sjálfsagt skynsamlegt, því annars hefðu menn sennilega fokið útaf í hrönnum. Þó skjálfti væri í mönnum á köflum héldu samt allir haus og fjölmargir áhorfendur fengu sitt fyrir peninginn.
Gestur frá Hæli lét sig ekki vanta í toppslaginn í kvöld og ræddi við þjálfara liðanna eftir leik:
Erik Olson – FSu
Ari Gunnarsson – Hamar
Mynd: Guðmundur Karl Sigurdórsson – sunnlenska.is
Umfjöllun: Gylfi Þorkelsson