Oddur Ólafsson leikur með Birmingham Southern College í vetur í NCAA III deildinni en þangað hélt hann eftir eins árs veru í miðskóla síðasta vetur. Karfan.is náði í skottið á Oddi sem telur stöðu sína innan liðsins, Birmingham Panthers, nokkuð góða.
,,Héðan er allt gott að frétta en við erum búnir að spila fjóra leiki og vinna alla. Ég er að spila um 10-15 mínutur svona í fyrstu leikjum tímabilsins en við höfum verið að vinna stórt og flest allir verið að fá tækifæri. Það er ekki nema fyrsti leikurinn sem var jafn og þar var ég að koma inn sem ,,backup point“. Í þeim leik spilaði ég síðustu fimm mínutur leiksins þegar allt var í járnum og það er nokkuð ljóst að þjálfarinn hefur einhverja trú á mér,“ sagði Oddur sem ætlar hægt og bítandi að vinna sig upp innan liðsins.
,,Ég met mína stöðu innan liðsins frekar góða. Maður verð bara að vinna sig hægt og bítandi upp listann og nýta tækifærið þegar það gefst. Það er mikið af nýjum kerfum og "drillum" sem verið er að fara í gegnum þannig að maður þarf að vera opinn fyrir nýjum hlutum. Liðið er öflugt, með nokkra fína reynda stráka í bland við yngri punga. Við erum með mjög góða bakverði og höfum verið að skjóta boltanum mjög vel svona í fyrstu leikjunum,“ sagði Oddur sem verður í eldlínunni í kvöld þegar BSC tekur á móti Huntingdon á heimavelli sínum Bill Battle Coliseum.
Fyrsti leikur BSC í riðli NCAA III deildarinnar er svo þann 3. desember á útivelli gegn Oglethorpe.