Stjarnan tók í kvöld á móti Fjölni í annari umferð Iceland Express deildar karla. Bæði lið höfðu tapað naumlega í fyrstu umferð og var því kærkomið tækifæri til að koma tímabilinu í gang fyrir bæði lið. Þá voru margir spenntir að sjá ungt og efnilegt lið Fjölnis kljást við Stjörnumenn, sem margir hafa spáð góðu gengi í vetur.
Það voru einmitt unglömbin í Fjölni sem byrjuðu leikinn mun betur. Grafarvogspiltarnir börðu hraustlega frá sér og áður en langt var um liðið var staðan orðin 2-12 gestunum í vil. Stjörnumenn virtust örlítið vankaðir en rönkuðu fljótt við sér og sölluðu niður 14 stigum í röð, staðan fljótlega orðin 16-12 eftir ansi skrýtna byrjun á leiknum. Ægir Steinarsson rauf þessa stigahrinu heimamanna og það sem eftir lifði leikhlutans skiptust liðin á að hafa forystuna. Eftir tvo góða þrista hjá Tómasi Tómassyni leiddu Fjölnismenn svo í lok fyrsta fjórðungs, 21-22.
Fátt markvert gerðist í öðrum leikhluta. Hvorugt liðið gaf færi á sér og var leikhlutinn frekar jafn. Hvorugt liðið náði að taka af skarið og skiptust þau oft á tíðum á eins til tveggja stiga forystu. Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem Stjörnumenn fóru aðeins að gera tilkall til leiksins og enduðu þeir hálfleikinn með nauma fimm stiga forystu 46-41.
Sú forysta virðist hafa gefið heimamönnum blóðbragð í munninn því í 3. leikhluta byrjuðu þeir hægt og rólega að síga fram úr og voru yfirleitt með ágæta 10 stiga forystu. Fjölnismenn börðust vel og reyndu að halda Stjörnumönnum í skefjum og tókst ágætlega til. Stjörnumenn með Justin og Jovan í fararbroddi héldu þó inn í lokaleikhlutann með 8 stiga forystu, 67-59.
Eftir góða baráttu allan leikinn skildi þó fljótt að með liðunum í lokafjórðung. Stjörnumenn byrjuðu að gefa verulega í og voru fljótlega komnir með 20 stiga forystu. Fjölnismenn gáfust þó aldrei upp og var virkilega gaman að horfa á þá spila körfubolta. Garðbæingar voru þó of stór biti fyrir þá Grafarvogspilta og fór svo að lokum að Stjarnan vann góðan 86-69 sigur. Athygli vakti að ungur piltur að nafni Dagur Kár Jónsson kom inn á í liði Stjörnunnar undir lok leiksins, en sá piltur er sonur einskis annars en Jóns Kr. Gíslasonar, fyrrum landsliðsmanns og þjálfara.
Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Jovan Zdravevski með 19 stig en hann tók auk þess 11 fráköst. Þá var Justin Shouse með 16 stig og Kjartan Kjartansson með 12 stig og 80% nýtni fyrir utan þriggja stiga línuna. Hjá Fjölni var Ben Stywall með 18 stig og 11 fráköst og Tómas Tómasson gerði 17 stig.
Heildarskor:
Stjarnan: Jovan Zdravevski 19/11 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 16/7 stoðsendingar, Fannar Freyr Helgason 13/9 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 12/5 fráköst, Guðjón Lárusson 8, Marvin Valdimarsson 7/4 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 4, Birkir Guðlaugsson 4, Birgir Björn Pétursson 3/8 fráköst, Ottó Þórsson 0, Dagur Kár Jonsson 0, Ólafur Aron Ingvason 0.
Fjölnir: Ben Stywall 18/11 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 17, Ægir Þór Steinarsson 15/4 fráköst/5 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 7/6 stolnir, Trausti Eiríksson 3, Jón Sverrisson 3/4 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 2, Hjalti Vilhjálmsson 2, Sindri Kárason 2, Elvar Sigurðsson 0, Jón Rúnar Arnarson 0, Sigurður Þórarinsson 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson
Umfjöllun: Elías Karl Guðmundsson
Myndir: Jón Björn Ólafsson