Vilborg Jónsdóttir fór mikinn í kvöld þegar Njarðvík lagði Tindastól í 1. deild kvenna. Lokatölur voru 88-65 þar sem Njarðvíkingar sigldu örugglega fram úr gestum sínum í síðari hálfleik.
Njarðvík var mun sterkari aðilinn í upphafi leiks, komust í 10-2 áður en Skagfirðingar rönkuðu við sér og náðu að minnka muninn í 21-17 og þannig stóð það eftir fyrsta leikhluta. Vilborg með 7 stig í liði Njarðvíkinga eftir fyrstu 10 mínúturnar en Tessondra með 8 í liði Tindastóls.
Baráttan harðnaði í öðrum leikhluta og Tindastóll náði að jafna metin en Njarðvíkingar leiddu þó 35-34 þegar liðin gengu til hálfleik. Tessondra leiddi sóknarleik gestanna með 16 stig í hálfleik en hjá Njarðvíkingum var Vilborg stigahæst með 9 stig.
Njarðvíkingar mættu m.a. með smá pressuvörn inn í síðari hálfleikinn og fengu nokkra góða bolta út úr því og breyttu stöðunni í 50-41 þegar 5 mínútur voru eftir af þriðja. Skömmu síðar fékk Vilborg Jónsdóttir sína fjórðu villu og hélt á tréverkið hjá Njarðvík. Þrátt fyrir fjarveru Vilborgar það sem eftir lifði þriðja leikhluta jók Njarðvík muninn í 62-50 þar sem Elfa Falsdóttir mætti með flautuþrist og sendi Njarðvíkinga í góðum gír inn í fjórða leikhluta.
Með eldflauginni sem Elfa skaut á loft í lok þriðja mættu heimakonur grimmar inn í fjórða og þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan 75-56 og björninn svo gott sem unninn. Lokatölur reyndust svo 88-65 þar sem Njarðvíkingar áttu fjórða og síðasta leikhlutann alveg skuldlaust.
Vilborg Jónsdóttir skoraði 27 stig í kvöld, tók 4 fráköst og gaf 6 stoðsendingar með 9 af 11 í teignum og þar af leiðandi 82% teignýtingu sem er bráðmyndarlegt. Lára Ösp Ásgeirsdóttir var henni næst með tvennu en hún skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og gaf einnig 5 stoðsendingar. Þá kom Elfa Falsdóttir sterk af bekknum með 14 stig og 4 fráköst. Flottur sigur hjá Njarðvíkurliðinu en Tindastóll að sama skapi að tapa sínum tíunda leik í röð. Hjá gestunum var Tessondra Williams með 26 stig og 9 fráköst og Karen Lind Helgadóttir bætti við 12 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Næsti leikur Njarðvíkinga er gegn Fjölni á útivelli þann 7. mars en Tindastóll mætir Hamri þann 14. mars.