Njarðvíkingar höfðu með sér sigur úr Keflavíkinni í gær þegar þeir lögðu Íslandsmeistarana í Toyota höllinni með 10 stigum í 20 umferð Iceland Express deildarinnar. Njarðvíkingar voru mun grimmari í öllum aðgerðum sínum en hjá Keflvíkingum var eins og vantaði þann neysta og kraft sem oftast er á móti fjendunum úr austri. Njarðvíkingar hófu leik á fyrstu stigunum og komust í 2-9 á upphafs mínútum leiksins en Keflvíkingar voru hinsvegar ekki lengi að jafna leikinn. Jafnt var á með liðunum út fyrsta fjórðung en það sem kom verulega á óvart var hversu leikurinn var daufur miðað við að þarna væri Derby slagur á ferð. Áhorfendur létu lítið í sér heyra og máltækið „Mánudagur til mæðu“ virtist smitast inn á völlinn. Aðeins eitt stig skildu liðin í hálfleik og strax í upphafi þess síðari hófst sama „Bingó kvölds“ stemmninginn í húsinu. Þegar leið á þriðja fjórðung fór að volgna í leikmönnum en þó aldrei að það næði suðumarki. Barátta og ýtingur fór að sjást og þarna hafa flestir haldið að stuðið væri að byrja. Undir lok þriðja fjórðungs hóf Magnús Þór Gunnarsson að gera orra hríð að körfu sinna fyrrum félaga með góðum árangri. Og þegar um 4 mínútur voru liðnar af þeim fjórða höfðu Njarðvíkingar komið sér í þægilegt 11 stiga forskot. Sókn Keflvíkinga var á þessum tíma algerlega hugmyndasnauð og langt síðan leikur þeirra hefur sést svo slakur og þá sérstaklega á sínum eigin velli. Njarðvíkingar gengu á lagið og héldu þessari forystu sinni til loka og hirtu bæði stigin sem í boði voru. Keflvíkingar geta engum öðrum en sjálfum sér kennt að hafa mætt svo illa stemmdir til leiksins. Sem fyrr segir var það Magnús Þór Gunnarsson sem reyndist Keflvíkingum erfiður að þessu sinni en maður leiksins að þessu sinni var Heath Sitton sem skoraði 19 stig, sendi 6 stoðsendingar og tók 7 fráköst og nýtti skot sín afar vel. Fátt var um fína drætti hjá heimamönnum en að vanda var það Sigurður Þorsteinsson sem var traustur með 24 stig og 9 fráköst og næstur honum var Hörður Axel með 20 stig.