spot_img
HomeFréttirNjarðvík sendi Haukastúlkur í sumarfríið

Njarðvík sendi Haukastúlkur í sumarfríið

 Njarðvíkurstúlkur komu sáu og sigruðu í kvöld þegar þær gjörsigruðu lið Hauka og í leiðinni sendu þær í sumarfríið í úrslitakeppni IEX deild kvenna. 83:55 var lokastaða leiksins og áttu þær grænklæddu sigurinn fyllilega skilið.
 Njarðvík tók frumkvæðið í leiknum strax frá upphafi þrátt fyrir að hafi verið nokkuð jafnt á tölum í fyrsta leikhluta. Liðið virtist vera töluvert einbeittari og tilbúnari í leikinn á meðan Haukastúlkur börðust í böggum að koma boltanum ofaní körfuna.  16 stig skildu liðin í hálfleik og má nánast segja að þar hafi leikurinn verið unninn.  Haukarstúlkur komust aldrei í sinn takt í þessum leik á meðan Njarðvíkurliðið lék við hvurn sinn fingur. 
 
Njarðvíkurliðið var að spila fínan bolta og þrátt fyrir að Sheila Fields hafi verið þeirra stigahæst (að venju) þá komu allar þær sem inná komu með góða baráttu og þær ætluðu sér ekki að fara aftur í Hafnarfjörðinn fyrst að þetta gullna tækifæri var komið í hendur þeirra. 
 
Haukaliðið átti hinsvegar mikið inni en náðu ekki að sýna það að þessu sinni. En það er nú einu sinni þannig að maður spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir og að þessu sinni voru heimastúlkur að spila fanta góða vörn. Haukar reyndu hvað þær gátu og reyndu t.a.m að skipta yfir í svæðisvörn en Njarðvíkurliði virtist vera við öllu búnar og leystu verkefnið vel að hendi. 
 
Njarðvíkurstúlkur fá verðugt verkefni í hendurnar því næst eru það Hamarsstúlkur en eins og flestir vita voru þær nánast ósigrandi í allan vetur. 
 
Fréttir
- Auglýsing -