spot_img
HomeFréttirNjarðvík kjöldróg KR í Ljónagryfjunni

Njarðvík kjöldróg KR í Ljónagryfjunni

Njarðvík tók KR á ipponi í Ljónagryfjunni í kvöld þegar lokaleikur níundu umferðar Subwaydeildar karla fór fram. Lokatölur 107-78 þar sem Ljónin voru einráð í síðari hálfleik og lönduðu verðskuldað tveimur stigum.

Nico Richotti var stigahæstur hjá Njarðvíkingum í kvöld með 27 stig, 3 stoðsendingar og 2 fráköst en EC Matthews var stigahæstur hjá KR með 17 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.

Það helsta

Njarðvík leiddi 28-15 eftir fyrsta leikhluta þar sem Mario Matasovic var eldsprækur á báðum endum vallarins. Gestirnir úr vesturbænum að sama skapi virkuðu stirðir og hugmyndasnauðir í sínum aðgerðum.

Nico Richotti tók við stuðkeflinu af Mario í öðrum leikhluta og batamerki sáust á leik KR. Dedrick Basile lokaði fyrri hálfleik með góðu gegnumbroti og Njarðvík leiddi 58-45 í hálfleik. Nico með 15 stig og Nacho Martin 13 en Aapeli með 10 og þeir EC Matthews og Dagur Kár báðir með 9.

Sú var tíðin að búast hefði mátt við KR með allar byssur á lofti inn í síðari hálfleikinn en það var öðru nær í kvöld. Njarðvík byrjaði þriðja leikhluta 18-8 og þar með var björninn endanlega unninn. Lokatölur reyndust eins og áður segir 107-78.

Næst á dagskrá

Næst á dagskrá hjá Njarðvík er risavaxinn bikarleikur gegn Keflavík í 8-liða úrslitum VÍS-bikarsins á mánudag. Hjá KR er næsti leikur einnig í VÍS-bikarnum þegar Höttur mætir á meistaravelli.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -