spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaNjarðvík 1-0 Grindavík: Heiðarleg tilraun gestanna dugði ekki til

Njarðvík 1-0 Grindavík: Heiðarleg tilraun gestanna dugði ekki til

Njarðvík tók 1-0 forystu í 8-liða úrslitum gegn Grindavík með naumum 87-84 sigri í Ljónagryfjunni. Allt stefndi í stórsigur Njarðvíkinga en gestirnir úr Grindavík börðu sér leið inn í leikinn og gerðu strangheiðarlega tilraun til þess að stela heimavallarréttinum í seríunni.

Bæði lið voru án sterkra leikmanna í kvöld þar sem Nacho Martin fylgdist með af tréverki Njarðvíkinga vegna meiðsla. Þá var Zoran Vrkic ekki með Grindavík af persónulegum ástæðum.

Nico Richotti var að finna sig vel í upphafi leiks og skoraði 14 stig í fyrsta leikhluta. Bragi og Skordilis að sama skapi beittastir Grindavíkurmegin en heimamenn leiddu 31-23 eftir fyrsta leikhluta.

Varnir þéttust í öðrum leikhluta og Grindvíkingum var nánast fyrirmunað að setja niður þrist, 3-20 í þristum í fyrri á meðan heimamenn voru að skjóta 53% og leiddu 50-33 í hálfleik. Allt útlit fyrir rólegan dag á miðunum en Njarðvíkingar gleymdu sér við handfærarúllurnar á fallaskiptunum og ráku vel út fyrir lóðninguna.

Í síðari hálfleik fengu gestirnir frá Grindavík það sem þeir þurftu, vítamínsprautu frá Ólafi Ólafssyni og Grindavík vann þriðja leikhluta 17-19 þar sem Ólafur Ólafsson lét nokkra langdræga rigna yfir Hauk Helga Pálsson. Ljónin leiddu 67-52 eftir þriðja leikhluta en Grindvíkingar áttu eftir að færast nærri.

Grindvíkingar fóru mikinn í fjórða, unnu leikhlutann 32-20 og hefðu bara þurft örfáar sekúndur í viðbót til þess að ná inn sigrinum. Ólafur Ólafsson sem var rólegur í fyrri hálfleik fór á kostum í þeim síðari á meðan Njarðvíkingar gíruðu niður með hverjum leikhlutanum.

Njarðvíkingar náðu þó að halda sjó og komust í 1-0 með 87-84 sigri. Serían færist því núna yfir í HS-Orku Höllina þar sem liðin mætast föstudaginn 7. apríl kl. 19:15.

Nico Richotti var stigahæstur hjá Njarðvík í kvöld með 29 stig og 4 stoðsendingar og Dedrick Basile bætti vði 16 stigum, 4 fráköstum og 4 stoðsendingum. Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson með 27 stig og 11 fráköst og þá bætti Bragi Guðmundsson við 19 stigum og 2 fráköstum.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -