Unglingalandsmót UMFÍ fór fram á Selfossi um verslunarmannahelgina og sem fyrr skipaði keppnin í körfubolta stóran sess á mótinu. Karfan.is leit við á Selfossi og sáust flott tilþrif hér og hvar en eitt atriði vakti sérstaklega athygli okkar.
Viðkomandi atriði átti sér stað í leik liðs frá Sauðárkróki og svo ungra manna er klæddust nærbolum. Nærbolirnir áttu erfitt uppdráttar og Skagfirðingar völtuðu yfir þá. Þegar leið á leikinn tóku nærbolirnir upp það ráð að sækja líkt og hinir frægu íshokkí-kappar í myndunum Mighty Ducks gerðu eða með fljúgandi V-i (e. Flying V). Þetta var þeirra lokatilraun til að komast sómasamlega yfir miðvallarlínuna en hún skilaði því miður ekki árangri en mikið afskaplega var þetta hressandi og nærbolirnir fá rokkprik fyrir að skemmta sér og öðrum.
Á mótinu sjálfu voru alls 24 stelpulið í körfubolta skráð til leiks og 63 strákalið sem töldu alls 615 keppendur og að sögn mótshaldara gekk allt rosalega vel.
Mynd/ Nærbolirnir báru sig vel í Vallaskóla á Selfossi.