Haukar voru mættir í heimsókn í Stykkishólm í fyrsta leik liðanna í síðari hluta Domino´s-deildarinnar. Fyrr í vetur höfðu Haukar mætt og hreinlega rúllað yfir Hólmara í bikarleik en í kvöld voru það heimamenn sem voru beittari og sigruðu 79-65.
Sherrod Wright var magnaður með 42 stig og 21 frákast. Snæfell komust í 14-3 í byrjun leiks en þeir voru þéttir fyrir í vörninni og Haukar glötuðu færum úr þröngum stöðum. Haukarnir með Emil og Kára í fararbroddi jöfnuðu leikinn 16-16 þegar 30 sekúndur voru eftir en Sherrod sem skoraði 13 stig í leiklutanum kom Snæfell yfir 19-16 áður en Kári skoraði um leið og leiktíminn rann út og staðan 19-18 fyrir heimamenn eftir fyrsta leikhluta.
Átta fyrstu stig Hauka í öðrum leikhluta komu öll af vítalínunni en þeir fengu 14 slík í leikhlutanum. Haukar jöfnuðu leikinn 21-21 en Snæfell héldu frumkvæðinu og með góðu framlagi frá heildinni leiddu heimamenn 41-34 í hálfleik. Stigahæstur í hálfleik fyrir Snæfell var Sherrod með 24 stig og hjá Haukum var Kári Jóns með 15 stig.
Hólmarar voru mjög einbeittir og léku fína vörn og sigldu framúr í byrjun seinni hálfleiks, leiddu 53-34 eftir 12-0 byrjun áður en Haukar minnkuðu forystuna niður í 54-49. Hólmarar með Sherrod í fararbroddi leiddu 56-49 eftir þrjá leikhluta og voru með fín tök á leiknum. Pálmi Freyr Sigurgeirsson nelgdi niður góðum þrist við mikinn fögnuð áhorfenda en Snæfell náðu mestri forystu aftur 12 stigum. Kári og Finnur Atli minnkuðu muninn fyrir gestina og staðan 61-56. Þá setti Þorbergur Helgi Sæþórsson niður einn svellkaldann þrist sem gaf tóninn fyrir 10-0 kafla heimamanna.
Austin Magnús fékk sína fjórðu og fimmtu villu á þessum kafla en sú síðari var tæknivilla, Snæfell voru betra liðið í kvöld og lönduðu mikilvægum sigri.
Haukar sem mættu kanalausir voru einsog þeir nenntu þessu ekki, áhugalausir og slappir. Varnarleikur Snæfells í þessum leik var til fyrirmyndar og rifu þeir niður fjölmörg fráköst. Lokatölur 79-65. Stigahæstur á vellinum var Sherrod Wright með 42 stig og 21 frákast og næstur kom Austin Magnús Bracey með 11 stig og 6 fráköst. Hjá Haukum var Kári Jónsson stigahæstur með 19 stig og 6 fráköst en næstur kom Hjálmar Stefánsson með 12 stig og 6 fráköst.