spot_img
HomeFréttirMikilvægt að bjóða hávöxnum leikmönnum upp á svona þjónustu

Mikilvægt að bjóða hávöxnum leikmönnum upp á svona þjónustu

 
Pétur Guðmundsson var heiðursgestur KKÍ á Lokahófi sambandsins síðastliðinn laugardag. Þá var Pétur einnig einn af þeim sem leiðbeindu við körfuboltabúðirnar fyrir hávaxna leikmenn. Karfan.is tók smá tal af Pétri sem búsettur er í Bandaríkjunum en kemur þó heim til Íslands eins oft og hann getur. Pétur talaði um að mikilvægt væri fyrir alla að sýna þolinmæði í garð stórra leikmanna og sagði búðirnar bráðnauðsynlegan þátt í starfinu.
,,Þetta er hlutur sem við verðum að halda utan um. Ég sé fyrir mér að þetta gæti jafnvel verið haldið oftar og þá með minni hópa. Eitthvað af þessum krökkum er kannski utan af landi og koma kannski ekki úr bestu aðstæðunum og því mikilvægt að geta boðið þeim upp á svona þjónustu,“ sagði Pétur sem fór út í bandaríska skólakerfði rétt tæplega 17 ára gamall.
 
,,Við erum hér með nokkra 16-17 ára stráka sem eru í kringum tvo metra og borið saman við hvað mig vantaði á sínum tíma þá er svona ,,campur“ nauðsynlegur. Þegar ég fór erlendis var ég varla 17 ára. Við þurfum stóra stráka og stórar stelpur núna og gaman að sjá margar af stelpunum við búðirnar,“ sagði Pétur og talaði síðar um mikilvægi hávaxinna leikmanna.
 
,,Þegar við spilum á móti stærri þjóðum sem hafa svona stóra leikmenn þá verðum við að búa yfir þeim líka svo við verðum að halda áfram að leita og halda vel utan um þennan þátt. Þetta er eina íþróttin sem getur gripið stóru krakkana. Við erum ekki endilega að tala um bestu íþróttamennina því körfuboltinn býður upp á að aðilar sérhæfi sig í ákveðnum hlutverkum og það hentar hávöxnu ungu fólki að fara í körfubolta og þau finna sér hlutverk sem í mörgum liðum gerir gæfumuninn.“
 
Þurfum að vera þolinmóð
 
,,Við þurfum líka að vera þolinmóð, þolinmæðin hefur kannski ekki alltaf verið til staðar. Íslendingar hafa löngum átt góða íþróttamenn í fótbolta og handbolta og auðvitað körfubolta en stóru mennirnir hafa kannski ekki fengið þolinmæðina sem þeir þurftu. Fleiri sentimetrar sem við þurfum að stjórna og þessu þarf að gefa tíma og það verðum við að gera okkur grein fyrir. Við þurfum að finna þessum aðilum pláss og halda vel utan um þau,“ sagði Pétur og kvað það ánægjulegt að geta komið heim og hjálpað við svona verkefni.
 
Fylgist vel með krökkunum
 
Pétur fór í gegnum bandaríska skólakerfið á sínum tíma. Hóf göngu sína í miðskóla (High School) og þaðan lá leiðin í háskóla. ,,Ég hef gaman af því að fylgjast með krökkunum frá Íslandi sem koma út enda búinn að vera lengi í Bandaríkjunum. Ég hef unnið með þeim nokkrum í þessu ferli en ég rak snemma augun í það að kynningu vantar á öllu ferlinu hér á Íslandi. Þessir krakkar verða að vita hvað þarf til að komast að í svona skólum. Kerfið er einnig mjög ólíkt því sem við þekkjum hér heima en ég mæli sterklega með því þar sem þetta kerfi býður upp á að íþróttir borgi fyrir menntun einstaklinganna og hún er dýr í Bandaríkjunum. Ef þú gerir þetta rétt þá eru miklir möguleikar á því að íþróttir geti greitt fyrir þig menntunina. Ég er boðinn og búinn að ráðleggja og aðstoða einstaklinga við þetta.“
 
Þrátt fyrir að hafa verið atvinnumaður er Pétur ekki æfingafíkill í dag. ,,Ég hugsaði ekki nægilega vel um mig þegar ég var að spila og meiðsli urðu til þess að ég hætti fyrr en ég vildi en ég æfi nú annað slagið til þess að forðast það að hlaupa í spik,“ sagði Pétur léttur á manninn.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -