21:24:30
Miami Heat eru, samkvæmt fregnum vestanhafs, að gefa Lamar Odom, framherja meistara LA Lakers undir fótinn. Þessi fjölhæfi leikmaður er með lausan samning og getur farið hvert á land sem er, en hefur staðið í hörðum samningaviðræðum við Lakers frá lokum leiktíðar.
Odom og umboðamaður hans hafa viljað fimm ára samning upp á 50 milljónir dala, en Lakers hafa boðið honum fjögurra ára samning með 9 milljónir í árslaun. Odom og hans fólk hafa ekki svarað tilboðinu heldur rætt við Dallas og Miami þannig að Lakers dróu boðið til baka.
Miami eru undir mikilli pressu að bæta við mannskap því að ofurstjarnan og stigakóngurinn Dwayne Wade hefur sagt að hann skrifi ekki undir nýjan samning fyrr en hann er viss um að liðið hafi það sem til þarf til að berjast um annan meistaratitil.
Odom gæti að sjálfsögðu orðið lykilmaður í endurreisn Miami ef af vistaskiptunum yrði, en Heat eru víst líka að gera harða atlögu að Carlos Boozer hjá Utah Jazz, en þeir þyrftu sennilega að láta Udonis Haslem og skiptimynt í skiptum fyrir Boozer sem hefur lýst því yfir að hann telji litlar líkur á að hann verði áfram í herbúðum Jazz á næstu leiktíð.
Í framhaldi af þessum bollaleggingum má segja að eins konar kapall liggi að baki Boozer, því að ef hann fer munu Jazz sannarlega halda Paul Millsap, sem lék svo vel í fjarveru Boozers í fyrravetur. Það setur Portland í vandræði því að þeir voru að vonast til að næla í Millsap, og sitja því uppi með tóman leikmannamarkað og góða summu af peningum sem þeir geta hvegi eytt.
ÞJ