spot_img
HomeFréttirMetfjöldi í æfingabúðum Ágústar: Þetta gæti verði miklu stærra

Metfjöldi í æfingabúðum Ágústar: Þetta gæti verði miklu stærra

21:33
{mosimage}

 

(Fjölmennur hópur iðkenda ásamt þjálfurum í æfingabúðum Ágústar) 

 

Æfingabúðir Ágústar Björgvinssonar, landsliðsþjálfara kvennalandsliðs Íslands, hófust í DHL-Höllinni í Vesturbænum á þriðjudagskvöld en þetta er áttunda árið í röð sem Ágúst stendur að þessum æfingabúðum sem jafnan fara fram fyrstu vikuna í júní. Metþátttaka er í búðunum eða hátt í 140 krakkar á aldrinum 12-17 ára. Ágúst kvaðst ánægður með eftirspurnina og sagði að engin úrræði af þessu tagi hefðu verið til staðar fyrir átta árum. Karfan.is ræddi við Ágúst um búðirnar þar sem margt skemmtilegt bar á góma.

 

,,Já, þetta er áttunda árið í röð. Ég hef lagt mismikið í þetta enda mjög upptekinn þar sem ég þjálfa mjög mikið. Sem dæmi er ég nýkominn heim frá Rússlandi en þangað fór ég beint að loknu Norðurlandamóti unglinga sem var í Svíþjóð,” sagði Ágúst sem hefur talsverða reynslu af því að halda svona æfingabúðir enda hefur hann starfað við slíkar víðsvegar um heiminn.

 

,,Nú er hjá okkur þjálfari frá Serbíu sem heitir Max en hann hafði fengið veður af þessum æfingabúðum og vildi fá að koma hingað og þjálfa við búðirnar. Hann hafði samband við mig og var mjög áhugasamur en hann hefur m.a. verið að þjálfa í Englandi,” sagði Ágúst svo ljóst er að hróður æfingabúða Ágústar hefur borist víða.

 

,,Suðurnesjaliðin eru að mæta vel og stelpur almennt mæta vel í æfingabúðirnar. Hér starfa Helena Sverrisdóttir, María Ben, Margrét Kara og Pálína sem og þjálfarinn Margrét Sturlaugsdóttir svo hér í æfingabúðunum er ég með rjómann í íslenskri kvennakörfu sem og aðra reynda þjálfara og leikmenn. Þetta gæti vel orðið mikið stærra og jafnvel alþjóðlegt en ef þetta á að stækka mikið meira þyrfti umgjörðin líka að stækka. Það eru bara fá hús á Íslandi ef einhver sem geta tekið þennan fjölda eins og DHL-Höllin gerir,” sagði Ágúst en þegar Karfan.is leit við í DHL-Höllinni var nóg um að vera og ljóst að æfingabúðirnar, ef áfram heldur sem horfir, verða fljótar að sprengja utan af sér DHL-Höllina og þá vandast málið.

 

,,Síðustu sjö ár í röð hafa æfingabúðirnar verið fyrstu vikuna í júní og það hefur gefið vel en krakkar á aldrinum 12-17 ára stunda búðirnar. Þetta er erfitt og krefjandi,” sagði Ágúst en okkur var spurn. Hvað vill Ágúst að iðkendurnir taki með sér heim úr búðunum?

 

,,Ég vil að þau taki með sér vitneskjuna um aukaæfinguna. Búðirnar eru í byrjun sumars og hér eru frábærar fyrirmyndir í leikmönnum sem stunduðu þessar búðir hjá mér þegar þau voru yngri. Þau tala um að það sé þessi aukaæfing sem skili árangrinum. Þá er erfitt að þjálfa sig sjálfur þegar maður kann ekki neitt og því tilvalið að sækja svona búðir til þess að sækja sér fróðleik svo maður geti líka sjálfur unnið að því að verða betri,” sagði Ágúst sem hefur þjálfað í svona æfingabúðum um allan heim.

 

{mosimage}

(Ágúst fer yfir málin með starfsfólki æfingabúðanna)

 

,,Ég var ungur þegar ég byrjaði á því að þjálfa í svona búðum og þannig náði ég mér í mikla reynslu. Það er frábært að krakkar geti sótt æfingabúðir yfir sumartímann en fyrir nákvæmlega 8 árum síðan voru engin úrræði af þessu tagi í boði og þegar upp verður staðið þá verður þetta okkur aðeins til framdráttar,” sagði Ágúst en fleiri hafa komið í lið hans eins og Stjörnumenn og Fjölnismenn sem halda úti æfingabúðum og elítubúðir KKÍ og svona væri lengi hægt að telja. Því er ljóst að það er mikið ánægjuefni hve mikil aukning hefur orðið í æfingaúrræðum yngri kynslóðanna og bar ekki á öðru en að iðkendurnir nýttu þessi úrræði til hins ýtrasta.

 

Æfingabúðirnar hófust á þriðjudag og standa fram á föstudag en allar æfingar fara fram í DHL-Höllinni milli kl. 17 og 20 og því um að gera að koma við í Vesturbænum og sjá efnilegt körfuboltafólk undir handleiðslu Ágústar og aðstoðarmanna hans.

 

[email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -