Karfan TV ræddi við Friðrik Inga Rúnarsson þjálfara Njarðvíkinga í dag þegar dregið var í 8-liða úrslit í Poweradebikarkeppninni. Einn leikur er eftir í 16-liða úrslitum en það er viðureign Hauka b og Íslandsmeistara KR sem dregin voru saman á einum miða í dag. Aðspurður hvort liðið Friðrik héldi að Njarðvík myndi á endanum mæta sagði hann að með fullri virðingu fyrir Haukum b teldi hann það nokkuð ljóst að KR yrði andstæðingur Njarðvíkinga í 8-liða úrslitum.
Friðrik skartaði einnig forláta Sixers húfu í viðtalinu en hann hefur um árabil stutt NBA liðið sem mátt hefur muna fífil sinn fegurri. „Ég yfirgef ekki sökkvandi skip,“ svaraði Friðrik aðspurður um höfuðfatið.