Matthías Orri Sigurðarson hefur vakið verðskuldaða athygli í miðskólanum Mountain Brook í Bandaríkjunum en skólaliðið gengur undir nafninu Spartans. Matthías fluttist á síðasta ári til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni og búa þau nú í Mountain Brook.
Matthías hefur síðustu ár farið mikinn í yngri flokkunum á Íslandi og var einnig lykilleikmaður í U16 ára landsliði Íslands 2010 og U18 ára landsliðinu á síðasta ári þegar liðin unnu til silfurverðlauna á Norðurlandamótinu.
Matthías rennir ekki blint í sjóinn í Bandaríkjunum þar sem hann æfir með Spartverjum undir stjórn Bucky McMillan sem var liðsfélagi og skólabróðir Jakobs Arnar, bróður Matthíasar, hjá Birmingham Southern.
Á heimasíðunni http://highschoolsports.al.com er Matthías í viðtali þar sem hann greinir m.a. frá því að hann hafi alltaf viljað prófa sig í Bandaríkjunum og að hann hyggi á að leika með bandarískum háskóla komi rétti skólinn upp á borðið.