,,Við vorum sterkari í seinni hálfleik en þegar upp er staðið þá kláruðu Njarðvíkingar þetta í fyrri hálfleik, þeir mættu bara sterkari til leiks og voru miklu tilbúnari, áttu öll fráköst og það skyldi að í hálfleik og svo fór allt of mikið púður í að ná þeim,“ sagði Marvin Valdimarsson í samtali við Karfan.is eftir 94-110 bikarósigur Stjörnunnar gegn Njarðvík í kvöld. Marvin fór mikinn fyrir Garðbæinga með 27 stig og 6 fráköst.
Er hugarfar Stjörnuliðsins það gott að það verður lítið verk að setja svona leik og svekkelsið sem honum fylgir aftur fyrir sig?
,,Já já, við gleymum þessu strax, nú er þetta bara búið og við getum ekkert í því gert. Nú er keppnin búin og við ætluðum okkur miklu miklu stærri hluti í þessari keppni og höfðum það takmark að komast í úrslitaleikinn og ekkert annað. Okkur tókst að klúðra því í kvöld,“ sagði Marvin en í kvöld eftir tæplega hálftímaleik voru aðeins fimm leikmenn Stjörnunnar komnir á blað, þarf framlagið ekki að vera veglegra en það?
,,Jú vissulega, við erum með 10 leikmenn alla jafngóða en það var ekki að skila sér alveg í kvöld, það er stundum svoleiðis en við bara mætum tilbúnir í næsta leik og setjum nú stefnuna á deildina og hugsum bara um hana.“
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – Marvin til varnar gegn Christopher Smith í kvöld.