Magnús Þór Gunnarsson varð fyrir því óláni að fingurbrotna á æfingu liðs síns og mun verða frá að sögn lækna í 4 til 6 vikur. Það þarf vart að taka það fram að þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir Keflavíkurliðið sem nú þegar sakna Arnars Freys Jónssonar sem einnig er meiddur.
"Ég var bara að taka skot í leik á æfingu og eftir skotið þá rek ég puttann eitthvað í Steve (Dagostine) og þá fór þetta svona. Læknarnir sögðu 4 til 6 vikur eins og alltaf en við sjáum til með það. Ég spila ekki á morgun gegn Njarðvík en ef ég get gripið bolta á laugardag þá ætla ég að vera með í bikarleiknum á móti ÍR." sagði Magnús Þór í samtali við Karfan.is fyrir stundu.
Eins og Magnús greinir frá þá eiga Keflvíkingar leik á morgun gegn Njarðvík heima og svo mikilvægur bikarleikur á útivelli gegn ÍR.